Neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:27:51 (3855)

2000-02-02 14:27:51# 125. lþ. 55.4 fundur 216. mál: #A neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi mál skuli hafa verið tekin hér upp. Það þyrfti náttúrlega að gera oftar og hafa þá lengri tíma fyrir umræðu. En mig langaði aðeins að koma því að að þau úrræði sem barna- og unglingageðdeild virðist hafa yfir að ráða duga ekki alltaf.

Ég þekkti til fyrir tveimur árum 15 ára stúlku sem átti við það alvarlega geðræna erfiðleika að stríða að þeir treystu sér ekki til að hafa hana á BUGL. Hvað var þá gert? Hún var send heim. Engin úrræði reyndust til. Það var reynt að nota bráðamóttöku á Landspítala en það úrræði hélt ekki. Ég verð að segja að sá vandræðagangur sem var í kringum það mál kom mér í opna skjöldu og ég held því miður að síðan hafi ekkert gerst sem breytt hafi þeim aðstæðum.