Neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:30:12 (3857)

2000-02-02 14:30:12# 125. lþ. 55.4 fundur 216. mál: #A neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni fyrir innlegg þeirra og fagna því að heyra það frá hæstv. ráðherra að hann sé að reyna að koma á neyðarmóttöku. Um leið bendi ég á að ekki er hægt að segja að unglingadeild barna- og unglingageðdeildarinnar sé neyðarmóttaka, það er bara ekki þannig. Aftur á móti þarf auðvitað að koma á neyðarmóttöku fyrir þessa hópa.

Það er vísað í fjármuni sem búið er að veita til Barnaverndarstofu og barna- og unglingageðdeildarinnar, einhverja fjámuni sem þeir þurfa síðan að fara að skipta á milli sín, en alveg ljóst er að þeir fjármunir sem hafa verið settir í þetta duga ekki til. Við verðum að forgangsraða ef svo ber undir og þarna er hópur sem er í mikilli hættu.

Ég get ekki gleymt orðum móður sem lýsti því fyrir mér hvernig hún stæði frammi fyrir þessari þjónustu með son sinn sem hún hefur þurft að fara með nokkrum sinnum inn á geðdeild í neyð og hann hefur verið sendur heim náttúrlega eftir skammtímavistun á barna- og unglingageðdeildinni. Hann kveikir í sér, hann sker sig. Þetta eru hryllilegar lýsingar hjá þessum foreldrum og síðan er ekki nein neyðarmóttaka fyrir þessi alvarlega sjúku börn. Það er ekki bara að þau séu andlega sjúk heldur eru þau þá líka slösuð, þau koma inn alvarlega slösuð í mörgum tilvikum þannig að það þarf sérstaka neyðarmóttöku fyrir þessi börn. Ekki er hægt að vísa á almennar deildir eða unglingadeildina fyrir börn sem eru það mikið veik að þau skaða sjálf sig á þennan hátt.

Ég treysti því, herra forseti, að hæstv. ráðherra taki á sig rögg og drífi í því að bæta ástandið í þessum málum.