Neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:32:30 (3858)

2000-02-02 14:32:30# 125. lþ. 55.4 fundur 216. mál: #A neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegur forseti. Það var rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan að þetta eru mjög flókin mál og erfið viðfangs. En við höfum einmitt verið að reyna að leysa úr þeim með samvinnu við t.d. Barnaverndarstofu og SÁÁ vegna þess að þetta er mjög samtvinnað. Ég tel að menn séu almennt sammála um að það sé rétt.

Hv. þm. og fyrirspyrjandi spurði áðan um neyðarmóttökuna. Þá sagði ég henni ekki frá því en ég get gert það nú, að inni á BUGL er verið að undirbúa tvö rými einmitt fyrir neyðarmóttöku sem er nú á Landspítalanum, af því að það er þægilegra að hafa þetta inni á BUGL en inni á Landspítala, og undirbúningur er þegar hafinn. En sem betur fer sjá þeir sem koma inn á barna- og unglingageðdeild að þar er unnið geysilega gott starf. Þar er mjög heimilislegt umhverfi og þar eru sérfræðingar á öllum sviðum sem taka mjög vel á þessum málum. Þó svo að barnadeildin hafi ekki verið opin um helgar segi ég enn og aftur að þá er unglingadeildin opin og börnin hafa getað farið þangað í vissum tilvikum. Auðvitað geta komið upp um helgar mjög alvarleg tilvik eins og hv. þm. benti á og auðvitað er reynt að grípa þar inn í. Ég endurtek að þessi neyðarmóttaka er í undirbúningi á barna- og unglingageðdeild.