Geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:37:39 (3860)

2000-02-02 14:37:39# 125. lþ. 55.5 fundur 217. mál: #A geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:37]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Spurningin er að sumu leyti villandi. Sérhæfð þjónusta fyrir börn með geðræna sjúkdóma er skipulögð undir faglegri yfirstjórn á geðsviði. Að sjálfsögðu fá þessi börn inni á barnaspítalanum ef þau veikjast og þurfa að fá sérhæfða meðferð sem veitt er á barnaspítala.

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur bygging nýs barnaspítala verið fyrst í forgangsröð yfir framkvæmdir á Landspítalanum í mörg ár og er það því sannarlega gleðiefni að framkvæmdir skuli vera komnar á skrið. Þegar barna- og unglingageðdeildin var stofnsett var hún á Barnaspítala Hringsins. Fagfólki þótti reynslan af því ekki nægilega góð og beitti sér fyrir því að deildin væri flutt yfir á svið geðlækninga. Þessi ákvörðun var tekin af faglegum ástæðum því að talið var að með þessu móti fengju börnin betri þjónustu þar sem sérhæfing fagfólks á geðsviði mundi nýtast barna- og unglingageðdeildinni vel. Þá var sú stefna einnig við lýði að deildin ætti ekki að vera í nánd við aðrar deildir Landspítalans heldur í umhverfi sem minni sem minnst á sjúkrahús.

Þeir sem koma á BUGL sjá að þar ríkir heimilislegt andrúmsloft og hlýlegt svo tekist hefur vel til hvað það varðar. Erlendis er þessari þjónustu fyrir komið með mjög mismunandi hætti og greinilegt að ekkert eitt rétt svar hefur fundist við þessu. Leitað er bestu leiða á hverjum tíma og eftir aðstæðum í hverju landi. Við undirbúning á byggingu barnaspítalans var unnin mikil vinna við þarfagreiningu og á því stigi voru þjónustunefndir BUGL og Ríkisspítalanna sammála um að deildin ætti ekki að vera í hinum nýja barnaspítala. Þeir töldu eðlilegra að deildin yrði innan geðdeildar, jafnvel sjálfstætt svið á Ríkisspítölum eða jafnvel sjálfstæð stofnun.

Vegna þessa samdóma álits yfirmanna var frá upphafi ekki gert ráð fyrir því að starfsemi BUGL yrði á hinum nýja barnaspítala. Eftir að undirbúningur var langt kominn var ljóst að nýjar áherslur höfðu komið fram og nýir yfirmenn töldu æskilegt að starfsemi BUGL yrði komið fyrir á barnaspítalanum. Á því stigi var málið hins vegar komið svo langt að ekki var talið mögulegt að breyta um stefnu, slíkt hefði tafið mjög fyrir byggingunni.

Virðulegi forseti. Vert er að benda á að vel hefur tekist til við samvinnu barnaspítalans og BUGL og áformað er að tiltekin göngudeildarstarfsemi BUGL verði á barnaspítalanum. Með því er vonast til að báðar einingarnar styrkist og þjónustan batni og það er markmiðið sem stefnt er að. Við megum auðvitað ekki í þessu sambandi algjörlega festast í húsaskipan.

Miðað við núverandi áætlanir og þá uppbyggingu sem þegar er að eiga sér stað er full ástæða til að ætla að því markmiði verði náð.