Geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:45:54 (3864)

2000-02-02 14:45:54# 125. lþ. 55.5 fundur 217. mál: #A geðsjúk börn á nýja barnaspítalanum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég minni aftur á það að barna- og unglingageðdeildin var fyrst til húsa í Barnaspítala Hringsins og var þar í nokkurn tíma, í nokkur ár. Síðan var það fagfólkið sem tók þá ákvörðun að færa hana út af spítalanum vegna þess að það taldi að börnin þyrftu heimilislegra umhverfi en spítalinn gat boðið upp á og það þyrfti meira svigrúm en ein spítalalóð getur boðið upp á. Það var af þessum sökum sem byggt var upp á Dalbrautinni og ég vona að flestir hv. þm. hafi komið þangað því að ég tel að þar hafi margt mjög vel tekist til.

Ég er ekki aðskilnaðarstefnumanneskja á einn eða annan hátt. En ég hef hlustað á það fagfólk sem tók þessa ákvörðun og ég samþykkti ákvörðun þess hvað þetta varðar. Menn geta deilt um það, og ég sagði í fyrri ræðu minni að það er ekkert eitt rétt eða satt í þessu. Þetta er með ýmsu móti í löndunum í kringum okkur. Ég er ekki komin til að segja að það sé hið eina rétta að börnin séu einhvers staðar annars staðar en á barnaspítala. En þetta er ákvörðun sem tekin hefur verið (ÁRJ: Stjórnvaldsaðgerðir.) og það hefur verið byggt upp mjög myndarlega á Dalbrautinni eins og ég sagði áðan. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir kallar nú fram í og segir að stjórnvöld hafi tekið þessa ákvörðun. Við hlustuðum á fagfólkið á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin. En það er alveg rétt að síðan hefur komið nýtt fagfólk inn á barna- og unglingageðdeild sem hefur önnur sjónarmið en þá var nokkuð seint að breyta þeim ákvörðunum sem þegar lágu fyrir.