Langtímameðferð fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:51:05 (3866)

2000-02-02 14:51:05# 125. lþ. 55.6 fundur 218. mál: #A langtímameðferð fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. gat um áðan þá er veitt þjónusta á hæfingardeild fyrir veik börn sem þurfa langtímaframhaldsmeðferð að lokinni meðferð á barna- og unglingageðdeild. Hins vegar skortir enn sambærilegt úrræði fyrir unglinga. Komið hafa fram tillögur um sérhæfða hæfingardeild fyrir unglinga 12--18 ára á Landspítalanum en nú er leitað heppilegri lausna á því sviði.

Það er ljóst að hér er um afar mikilvægt mál að ræða. Þó að hópurinn sem þarf á þessari þjónustu að halda sé sem betur fer ekki stór er þetta fólk í mjög brýnni þörf fyrir þessa þjónustu. Þessi vandi er sérstaklega brýnn hér á suðvesturhluta landsins. Það mál hefur verið skoðað sérstaklega í tengslum við stefnumótunarvinnu í málefnum langveikra barna og unglinga en eins og kunnugt er samþykkti ríkisstjórnin sl. haust að skipa nefnd með fulltrúum fjögurra ráðuneyta til að semja drög að heildstæðri og samræmdri stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna og unglinga.

Þess má einnig geta að ýmis önnur úrræði, m.a. í skólaheilsugæslu, er einnig fyrirhugað að styrkja sem koma ekki síst þessum hópi langveikra barna til góða og þegar eru tvö tilraunaverkefni í gangi.

Eins og fram kom í fyrra svari hefur göngudeild og dagdeildarþjónusta á BUGL verið efld verulega á síðustu árum sem er í samræmi við þróun í meðferð fyrir börn og unglinga víðast hvar í heiminum. Þegar slíkt úrræði dugir ekki er hins vegar mikilvægt að hafa til boða langtímameðferð á stofnunum og eins og ég nefndi er verið að skoða það mál sérstaklega.

Eins og fram hefur komið hefur verið veitt stóraukið fjármagn til barna- og unglingageðdeildarinnar að undanförnu. Markmiðið með þessu fjármagni er að sjálfsögðu að auka þjónustu við börn og unglinga, m.a. með því að bæta við starfsfólki til að sinna þessu brýna verkefni.