Langtímameðferð fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:53:33 (3867)

2000-02-02 14:53:33# 125. lþ. 55.6 fundur 218. mál: #A langtímameðferð fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur skilning á því að það þurfi langtímavistun og framhaldsmeðferð. En það dugir ekki að skipa bara nefnd og það er ekki nóg að vera alltaf að skoða málin. Þetta er svo stór og brýnn vandi að ekki er hægt að bíða endalaust eftir að menn tali sig út úr honum.

Ég ætla aðeins að segja ykkur hvernig móðir lýsti þessu fyrir okkur. Hún var að segja okkur frá því þegar sonur hennar, sem er barn, kemur heim og hún fær enga framhaldsmeðferð fyrir hann. Og hún segir: ,,Hann er svo veikur að hann ræðst á mig og hann gengur í skrokk á mér og ég get ekkert gert. Ég bíð eftir bara að hann geri út af við mig eða sjálfan sig. Það er enginn staður fyrir hann.`` Og hún ákallaði okkur þingmenn: ,,Hjálpið okkur.``

Ég spyr bara hæstv. ráðherra: Ætlar hún að láta þessi mál danka endalaust í einhverjum nefndum eða að láta starfsmenn eða einhverja vera að skoða þessi mál endalaust? Við höfum vitað það a.m.k. í á annað ár að þessi vandi er fyrir hendi og hann er mjög stór og þetta eru fáir einstaklingar eins og ég benti á. Þetta eru nokkur börn. Við höfum ekki efni á því núna í góðærinu þegar menn geta eytt tugum ef ekki hundruðum milljóna í hesta eða þjónustu við þá að ekki sé hægt að bjarga fólki og fjölskyldum sem eru í svona stórri neyð eins og foreldrar þessara barna eru, þessara barna sem eru hvað veikust af þessum alvarlega sjúkdómi.