Íslenski hrafnastofninn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:18:57 (3875)

2000-02-02 15:18:57# 125. lþ. 55.9 fundur 169. mál: #A íslenski hrafnastofninn# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Sem áhugamanni um velferð íslenska hrafnsins þótti mér svar hæstv. ráðherra firnalega merkilegt. Í því komu fram upplýsingar sem ég sé í hendingsbragði að er ekki unnt að túlka öðruvísi en með miklu alvarlegri hætti en hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra bendir á að í Þingeyjarsýslunum hafi hrafninum fækkað um ríflega 2% á ári síðan 1991, með öðrum orðum hefur honum fækkað um meira en 20% á þessum áratug. Það er alvarleg fækkun. En hæstv. ráðherra kom með aðrar tölur sem eru miklu eindregnari vísbendingar um þetta. Hæstv. ráðherra sagði að árið 1995 þegar fyrstu upplýsingar komu fram úr skýrslum veiðimanna hefðu verið veiddir ríflega 7.000 hrafnar en síðustu upplýsingarnar frá síðasta árinu sem liggur fyrir eru þeir orðnir 5.000. Eigi að síður liggur það fyrir samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði að veiðiálagið hefur ekki minnkað heldur líkast til hefur það aukist. Þá þýðir það með öðrum orðum, herra forseti, sama veiðiálag en minni veiði bendir til þess að í stofninum hafi fækkað mun meira en hæstv. ráðherra telur. Ég held þess vegna að ekki sé hægt að tala um þetta eins hæstv. ráðherra gerir. Hún gerir því skóna að hér sé ekki um alvarlega stöðu að ræða. Ég held að þær vísbendingar sem koma fram í svari hæstv. ráðherra bendi til þess að þegar í stað þurfi að grípa til einhverra viðbragða. Ekki er hægt að segja hér að ekki sé hægt að benda á veiðar sem einhlíta skýringu. Það skiptir engu máli þó skýringar séu margar. Við þurfum ekki að grípa til þess aftur að dreifa sorpi og úrgangi út um mýrar og móa sem voru áður heppileg fæða fyrir hrafninn. Það eina sem við getum gert, herra forseti, eina breytan sem við getum breytt í þessu dæmi er að draga úr veiðunum. Niðurstaða mín af þeim upplýsingum sem hæstv. ráðherra kemur fram með er ákaflega augljós. Miðað við þessar upplýsingar er ekki annað hægt en að láta náttúruna njóta vafans og láta íslenska hrafninn þegar í stað á válista. Ekkert þýðir að bíða eftir einhverjum rannsóknum sem þar að auki á bara að gera á tveimur afmörkuðum svæðum.