Kortlagning ósnortinna víðerna

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:22:23 (3877)

2000-02-02 15:22:23# 125. lþ. 55.10 fundur 252. mál: #A kortlagning ósnortinna víðerna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Þann 10. mars 1999 samþykkti Alþingi Íslendinga með 47 samhljóða atkvæðum að fela umhvrh. að láta kortleggja ósnortin víðerni á Íslandi. Einnig kveður svo á í þáltill. að gerð verði áætlun um verkefnið, umfang þess og kostnað og nauðsynlegt framlag markað í fjárlögum. Tillaga þessi átti sér nokkurn aðdraganda þar sem áður hafði verið unnið að því að skilgreina hugtakið ,,ósnortið víðerni``. Starfshópur sem fékk það verkefni skilaði af sér niðurstöðu í febrúar 1998 og var skilgreining hans á hugtakinu sett inn í náttúruverndarlög sem samþykkt voru á Alþingi í mars í fyrra. Skilgreiningin er eftirfarandi:

,,Landsvæði sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu, er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum, og þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum.``

Nú er það svo að þrátt fyrir talsverða baráttu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við fjárlagagerðina fyrr í vetur, fékkst ekki samþykki Alþingis fyrir því að verkefninu yrðu markaðir fjármunir í fjárlögum. Þá á ég við fjárlög yfirstandandi árs. Þó er ég ekki úrkula vonar því ég er að vona að hæstv. umhvrh. eigi einhverja möguleika á að verkefnið hljóti brautargengi í ár og spyr hana þess vegna: Hvað líður kortlagningu ósnortinna víðerna á Íslandi?