Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:33:24 (3880)

2000-02-02 15:33:24# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:33]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir umræðu um stöðuna í álversviðræðum ríkisvaldsins og Landsvirkjunar við Norsk Hydro. Ég harma að ekki skyldi vera hægt að fara að óskum mínum um lengda umræðu sem ég lagði mikla áherslu á að fá, enda tel ég fulla ástæðu til og er greinilega ekki ein um þá skoðun þar sem Morgunblaðið spyr í leiðara sínum í morgun: Hvað er eiginlega um að vera?

Ljóst er að frá því að þáltill. um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun var samþykkt á Alþingi hafa ýmis þau tíðindi gerst sem vert væri að fá brugðið á nánara ljósi. Það er orðið ljóst að Norsk Hydro óskar eftir tryggingu fyrir því að stærð fyrirhugaðs álvers verði 480 þús. tonn. Það kemur m.a. fram í ummælum Thomasar Knutzens, upplýsingafulltrúa Norsk Hydro, í fréttum Stöðvar 2 sl. mánudagskvöld þar sem hann segir, með leyfi forseta:

,,Málmbræðsla á Íslandi verður að sjálfsögðu að vera samkeppnisfær á alþjóðamarkaði. Þess vegna viljum við hafa hana stóra á alþjóðlegan mælikvarða, þ.e. 480 þús. tonn. 120 þús. tonna álver hentar ekki.``

Hæstv. fyrrv. ráðherra Finnur Ingólfsson talaði þannig í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun að séð yrði til þess að 120 þús. tonna áfanginn væri þannig hugsaður að hann stæði undir sér. Hann sagði að stækkunarmöguleikinn væri að sjálfsögðu inni í myndinni en til hans yrði að taka afstöðu sérstaklega þegar þar að kæmi. Þannig virðast fulltrúar eignarhaldsfélagsins Hrauns líka meta stöðuna en þeir hafa farið fram á að úrskurður skipulagsstjóra um frekara mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs 480 þús. tonna álvers verði ógiltur eða, til vara, að heimilaðar verði strax framkvæmdir við 120 þús. tonna áfangann án frekara mats.

Nú hefur Norsk Hydro lýst þeirri stefnu sinni að það vilji ná samningum um 480 þús. tonna álver. Yfirmaður áldeildar fyrirtækisins, Eivind Reiten, hefur lýst því yfir við íslenska fjölmiðla að skilyrðið fyrir þátttöku Norsk Hydro sé að trygging fáist fyrir stækkun álversins. Nú spyr ég hæstv. iðnrh. Valgerði Sverrisdóttur: Getur hún staðfest að samningar við Norsk Hydro miðist við byggingu 480 þús. tonna álvers og ef svo er, hvaðan á að afla orkunnar? Hvaða virkjanakostir eru til umræðu? Telur ríkisstjórnin sig hafa rétt til að semja um svo stóra verksmiðju án þess að fyrir liggi samþykki Alþingis fyrir þeim virkjanakostum sem væru forsenda hennar?

Ég vil í því sambandi benda hæstv. ráðherra á 40. gr. stjórnarskrárinnar en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.``

Ef svar hæstv. iðnrh. við spurningunni um hvort Norsk Hydro geri kröfu um slíkar tryggingar yrði jákvætt vildi ég spyrja í framhaldinu: Hvenær hyggst hæstv. ráðherra gera Alþingi Íslendinga grein fyrir því hvaða virkjanir séu til umræðu til að útvega 480 þús. tonna álbræðslu nauðsynlega orku?

Norsk Hydro réði á dögunum virtan sérfræðing til að yfirfara skýrslu Landsvirkjunar um umhverfisáhrif væntanlegrar Fljótsdalsvirkjunar. Sá maður nýtur trausts hvarvetna á Norðurlöndunum. Niðurstöðu hans er að vænta innan skamms. Að mínu mati gefur Norsk Hydro skýrslu Landsvirkjunar falleinkunn með þessu eins og íslenskir umhverfisverndarsinnar og ýmsir vísindamenn gerðu raunar meðan skýrslan var til umræðu hér í þinginu. Sömuleiðis lýsir Norsk Hydro að mínu mati vantrausti á vinnubrögð íslenskra stjórnvalda við undirbúning málsins. Þá hefur það líka komið fram í ummælum fulltrúa Norsk Hydro að fyrirtækið yrði ekki afhuga verkefninu þó það tefðist vegna frekari rannsókna á umhverfisþætti málsins. Mig langar að spyrja hæstv. iðnrh.: Hver er afstaða hennar til tímasetninga verkefnisins sem hvort eð er eru allar komnar úr skorðum frá því sem Noral-yfirlýsingin gerir ráð fyrir? Kæmu íslensk stjórnvöld til með að missa áhugann á verkefninu ef það tefðist eitthvað vegna frekari rannsókna á umhverfisþættinum?

Að lokum herra forseti: Er það ekki alveg á hreinu, frá sjónarhóli stjórnvalda, að ef ekki verður hægt að ná samningum um hagkvæmt orkuverð þá verði Fljótsdalsvirkjun ekki reist?