Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:49:58 (3885)

2000-02-02 15:49:58# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er áhyggjuefni að nýr hæstv. iðnrh. skuli ekki sjá ástæðu til þess að brjóta blað og taka upp ný vinnubrögð varðandi orkuöflun til álvers á Austurlandi. Það er hryggilegt til þess að hugsa að við þurfum að byggja á þeim upplýsingum sem eru gefnar af útlendum aðilum, samstarfsaðila Íslendinga. Hér tala stjórnarliðar um vinnubrögð en neita hins vegar að horfast í augu við að fyrir þinginu liggja tillögur sem byggja á öðruvísi notkun á þeirri orku sem fyrir hendi er í landinu. Bendi ég þá á till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu. Sorglegt er til þess að vita að þegar þingið er búið að segja a með stjórnarmeirihlutanum að þá skuli þinginu vera neitað um þá vinnu sem nauðsynleg er til þess að fá heildarmynd af því ævintýri sem við erum að fara út í.

Það er 480 þús. tonna álver sem um er að ræða. Á sama tíma lokar stjórnin og hæstv. iðnrh. augunum fyrir því að nauðsynlegt er fyrir þjóðina og þingið að hafa heildarmynd af pakkanum. Lögformlegt umhverfismat Fljótsdalsvirkjunar, lögformlegt umhverfismat á Kárahnúkavirkjun, lögformlegt umhverfismat á Arnardalslóni, línulögnum o.s.frv. til þess að standa frammi fyrir pakkanum sem menn eru sammála um að sé stefnt að.

Þetta er áhyggjuefni fyrir þingið vegna þess að ef menn ætla að taka ákvörðun um sjálfbæra orkustefnu, sem mjög er gumað af að þurfi að koma í framkvæmd og stjórnarliðar í aðra röndina eru að stefna að, er ekki pláss til orkuöflunar fyrir sjálfstæða orkuöflun og sjálfbæra orkustefnu Íslendinga og að fara í ævintýri af því tagi sem stefnt er að með 480 þús. tonna álveri austur á fjörðum.