Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:51:56 (3886)

2000-02-02 15:51:56# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:51]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það sem hér hefur komið fram hjá hv. málshefjanda og öðrum andstæðingum hugsanlegrar virkjunar í Fljótsdal hefur í rauninni allt komið fram. Það kom fram í löngum og miklum umræðum á hv. Alþingi fyrir áramót.

Síðan þá hefur í rauninni ekkert breyst í málinu. Ég tel að tvennt komi fram og það hefur komið fram núna í þessari stuttu umræðu. Það er annars vegar óskhyggja andstæðinga Fljótsdalsvirkjunar um að ekkert verði af virkjun og hins vegar nauðhyggja hv. þm. Sverris Hermannssonar gagnvart Finni Ingólfssyni. Það er heldur ekkert nýtt.

Það er heldur ekkert nýtt, herra forseti, að Norðmenn hafa lýst því yfir að þeir stefni að og telji æskilegast að upp komi 480 þús. tonna álver við Reyðarfjörð. Það er heldur ekkert nýtt og það hefur alla tíð legið fyrir að það vilja þeir gera í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn á þeirri leið er 120 þús. tonn samkvæmt upphaflegum áætlunum. Það hefur legið fyrir, það er ekkert nýtt. Það er líka mjög skynsamleg leið að taka þetta í áföngum, taka fyrsta áfangann 120 þús. tonn og meta þau áhrif sem af því koma, bæði rekstrarleg áhrif, umhverfisáhrif, byggðaáhrif o.s.frv. Í ljósi þeirrar reynslu er eðlilegt að skoða möguleika á stækkun.

Þetta hefur ávallt legið fyrir, herra forseti, þetta er ekkert nýtt. Þess vegna tek ég undir það, sem hér hefur verið sagt, að umræðan núna er tilefnislaus. En það sem ég nefndi hér sýnir líka gildi þess og mikilvægi að fjalla um málið í áföngum enda eru upphafleg bréf í þeim dúr.

Hvað orkuverðið varðar liggur það fyrir nú sem fyrr að ekkert verður af samningum nema semjist um ásættanlegt orkuverð. Verði ekki af samningum er víst að hv. stjórnarandstaða hefur lagt sitt af mörkum til þess.