Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 15:54:16 (3887)

2000-02-02 15:54:16# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[15:54]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Finnur Ingólfsson, sá er nú vermir húsbóndastól í Seðlabankanum, var ekki til viðræðu um annað en 120 þús. tonna álver í Reyðarfirði í umræðunni um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun á hinu háa Alþingi fyrir jól. Sú umræða er þingheimi í fersku minni.

Hér á landi vill Norsk Hydro reisa í samstarfi við íslenska fjárfesta stærsta álver í Evrópu, 480 þús. tonna álver. Annað er ekki hagkvæmt þegar til lengri tíma er litið, segja forráðamenn fyrirtækisins. Nýjustu yfirlýsingar Norsk Hydro varpa enn og aftur ljósi á það hversu einkennilegur og veikburða málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar er í málinu. Stjórnvöldum er hollast að viðurkenna hér og nú að allt hálendið norðan Vatnajökuls er undir þegar stóriðjuáform á Austurlandi eru annars vegar. Fljótsdalsvirkjun mun ekki einu sinni duga fyrir fyrsta áfanga álversins, hvað þá fyrir 360 þús. tonnum í viðbót. Stefnan hefur verið tekin á Kárahnúka og svo á Arnardalinn.

Herra forseti. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað kallað eftir ábyrgum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar við undirbúning virkjanaframkvæmda. Það er dagljóst að eina leiðin til þess að tryggja skynsamlega nýtingu vatnsorku og jarðvarma hér á landi er að allar fyrirhugaðar virkjanir séu metnar saman innan rammaáætlunarinnar sem nú er unnið að á vegum iðnrn. Í því sambandi þarf einnig að hafa í huga að samkvæmt lögum ber að samþykkja náttúruverndaráætlun til fimm ára árið 2002.

Herra forseti. Ég skora á nýskipaðan hæstv. iðnrh. að taka virkjanaáform vegna álvers á Reyðarfirði til gagngerrar endurskoðunar í ljósi yfirlýsinga Norsk Hydro og þess að allar helstu gróðurvinjar öræfanna norðan Vatnajökuls hafa verið lagðar undir í stóriðjupóker ríkisstjórnar Íslands.