Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 16:00:55 (3890)

2000-02-02 16:00:55# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Málið er allt misskilningur og byggist á því að þýðendur Stöðvar 2 kunna ekki norsku. Ekkert nýtt hefur gerst í málinu, segir hæstv. iðn.- og viðskrh. Og hv. þm. og formaður iðnn., Hjálmar Árnason, kemur hingað og segir: Hvað eru menn að belgja sig hérna út? Þetta kom allt saman fram áður, menn höfðu áður í umræðunni talað um 480 þús. tonna álver.

Það er að sönnu rétt, menn gerðu það og aðstoðarmaður iðnrh. lét þess einnig getið á frægum fundi á Egilsstöðum að jafnvel væri mögulegt að fara í 720 þús. tonna álver. En það sem gerðist ekki í umræðunni fyrir jól var að hv. þingmenn stjórnarliðsins og hæstv. þáv. iðnrh. treystu sér til að tala um svona stórt álver. Þegar ég og ýmsir aðrir þingmenn fórum fram á þá sanngirni að menn ræddu um þá virkjunarkosti sem hlytu að verða undir ef stefnt væri að 480 þús. tonna álveri þá sagði hæstv. þáv. iðnrh. að einungis væri til umræðu 120 þús. tonna álver og hann gaf það fyllilega til kynna að ef það tækist að ná þessum áfanga yrði ekki ráðist í annað.

En hvað er það sem er raunverulega undir, herra forseti? Menn eru með lævi og blekkingum að fara ákveðna leið til þess að ná öllu svæðinu norðaustan Vatnajökuls undir raforkuframleiðslu. Menn fara þessa leið, herra forseti: Fyrst vilja þeir fá Fljótsdalsvirkjun og þegar þeir hafa einu sinni laskað landið með henni er miklu auðveldara að ná fram samþykki fyrir að fara í Kárahnúkavirkjun og síðan annað. Við verðum auðvitað að skoða þetta allt í samhengi. Verið er að tala um Eyjabakkana, það er verið að tala um Kárahnúkavirkjun og það er líka verið að tala um Jökulsá á Fjöllum og þar með Dettifoss og Bjarnarflagið. Er það virkilega svo, herra forseti, að mönnum finnist það umhendis og ósanngjarnt af okkur að koma hingað og spyrja: Hvað er á seyði? Spurningin sem hæstv. iðnrh. verður að svara er þessi: Hafa íslensk stjórnvöld gefið Norsk Hydro einhvers konar formleg eða óformleg vilyrði fyrir því að ráðist verði í þessar virkjanir? Hæstv. ráðherra verður að svara því skýrt og skorinort: Er búið að lofa Norsk Hydro að leggja allt svæðið norðaustan Vatnajökuls undir virkjanir?