Stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 16:03:14 (3891)

2000-02-02 16:03:14# 125. lþ. 55.93 fundur 274#B stærð álvers við Reyðarfjörð og orkuöflun til þess# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[16:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér á allt að vera á misskilningi byggt og hér eru allir sakaðir um skort á tungumálakunnáttu. En þetta heitir í sannleika sagt, herra forseti, rétti maður nokkrum litla fingurinn þá skyldi maður gá að því að hann verði ekki búinn að gleypa höndina áður en maður veit af því það er hálendið norðan Vatnajökuls sem við erum að fjalla um. Það verður að fá svar hæstv. ráðherra við því hvort íslensk stjórnvöld séu að gefa Norsk Hydro einhvers konar vilyrði fyrir 480 þús. tonna álveri áður en 120 þús. tonna álverið verður reist.

Hv. þm. Hjálmar Árnason sagði í ræðustóli rétt áðan að það sé skynsamleg leið að meta 120 þús. tonnin fyrst og í ljósi þeirrar reynslu sem síðan kæmi af þeim áfanga mætti skoða stækkun. Nákvæmlega sama tugga kom frá hæstv. fyrrv. iðnrh. og ekki fengum við skýrari svör frá núv. hæstv. iðnrh. í ræðunni áðan. Hafi hæstv. umhvrh. flutt skipulagstuggu í umræðunni um Fljótsdalsvirkjun, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði ræðu hennar þá, vil ég fullyrða það, herra forseti, að hér hefur hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir flutt loðmullu, því ræðan var þvílíkt tog að hún var eins og tyggjó sem maður gat ekki fótað sig í.

Ég vil segja að lokum, herra forseti, að ég hef hér úrklippu úr Dagens Næringsliv, þar sem það er alveg ljóst hvernig umræðan er orðin á Norðurlöndunum núna. Í Dagens Næringsliv í gær segir, með leyfi forseta, og ég ætla að fá að vitna í þetta á norsku:

,,Norsk Hydro utvider Island-prosjekt. Norsk Hydro trosser massive protester og miljøadvarsler og går videre med planene om å bygge et aluminiumsverk med en kapasitet på 480.000 tonn på Island``.

Ég læt hæstv. iðnrh. það eftir að þýða.