Banka- og póstafgreiðslur

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:06:37 (3894)

2000-02-02 18:06:37# 125. lþ. 55.12 fundur 302. mál: #A banka- og póstafgreiðslur# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hvað varðar fyrri spurningu hv. þm. þá hefur Fjármálaeftirlitið fjallað um álitaefnið og tekið afstöðu til þess. Í afstöðu eftirlitsins kemur fram að skv. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sé starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða fólgin í geymslu og ávöxtun fjár, miðlun á peningum, verðbréfaviðskiptum og annarri þjónustustarfsemi sem er í tengslum við slík viðskipti. Í 1.--14. tölulið er síðan talin upp sú starfsemi sem þessum stofnunum er heimil. Í 5. mgr. sömu greinar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Viðskiptabönkum og sparisjóðum er einnig heimilt að stunda aðra starfsemi en um ræðir í 1. mgr., enda sé slík hliðarstarfsemi í eðlilegu framhaldi af viðskiptabanka- eða sparisjóðsstarfsemi. Til framangreindrar starfsemi þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins sem jafnframt getur ákveðið að hún skuli stunduð í sérstöku félagi.``

Í 2. gr. laga nr. 113/1996 segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Viðskiptabönkum og sparisjóðum er einungis heimilt, nema annað leiði af lögum, að stunda viðskiptabanka- eða sparisjóðastarfsemi eins og hún er skilgreind í V. kafla laga þessara.``

Með vísan til þessara ákvæða hefur Fjármálaeftirlitið talið það andstætt lögum nr. 113/1996 að viðskiptabankar eða sparisjóðir reki póstþjónustu. Þá hefur einnig komið fram að Fjármálaeftirlitið telji að viðskiptabönkum og sparisjóðum sé ekki heimilt að fela öðrum aðilum að sinna grundvallarþáttum í starfsemi sinni sem þessar stofnanir stunda á grundvelli starfsleyfis viðskrh. samkvæmt lögum nr. 113/1996. Með hliðsjón af þessu hefur Fjármálaeftirlitið talið að samstarf Íslandspósts hf. annars vegar og viðskiptabanka og sparisjóða hins vegar geti að óbreyttum lögum einungis falist í samnýtingu húsnæðis og starfsfólks enda sé tryggður fullnægjandi aðskilnaður í starfsemi hvors aðila um sig.

Hvað varðar síðari spurningu hv. þm. er rétt að benda á að viðskrh. hefur skipað nefnd sem hefur m.a. það hlutverk að endurskoða lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Eitt af þeim málum sem sú nefnd mun taka afstöðu til er hvort rétt sé að heimildir til samstarfs á þessu sviði verði rýmkaðar en fram hafa komið ábendingar í þá átt. Ráðuneytið og Fjármálaeftirlitið hafa talið slíkar breytingar eðlilegar og mun ráðuneytið beita sér fyrir þeim.