Banka- og póstafgreiðslur

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:10:59 (3896)

2000-02-02 18:10:59# 125. lþ. 55.12 fundur 302. mál: #A banka- og póstafgreiðslur# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:10]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hér koma fram. Ljóst er af því sem kom fram í máli hennar að jákvæður vilji er til þess að breyta lögunum þannig að þetta geti verið með þeim hætti sem a.m.k. ég tel æskilegast og sömuleiðis sá sem hér síðast talaði, þ.e. að menn leggi sig fram við þær breytingar á lögunum að þessi þjónusta, svo mikilvæg sem hún er, geti verið sem víðast og að sparnaður eða hagkvæmni geti orðið í starfseminni til þess að hún geti í rauninni borið sig en samt sem áður geti hún átt sér stað vegna þess að menn eigi þess kost að eiga með sér hagkvæmt samstarf.

Ég held að samkeppnislög komi ekki að þessu máli þannig að það ætti að vera til neinna trafala. Fjármálaeftirlitið hlýtur að vera sá aðili sem þarna hefur eitthvað að segja og eftir því sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra eru aðilar þar á bæ jákvæðir gagnvart því að breytingar verði gerðar á lögunum. Það eina sem mig langar til að vita í framhaldinu er hvenær menn reikna með að sú nefnd sem er að störfum, skili vinnu sinni þannig að við getum vænst þess að sjá frv. til laga um breytingar á þessum lögum og þá í framhaldinu séð fyrir okkur hvenær menn geta farið að hugsa á þessum nýju nótum um þjónustuna.