Póstþjónusta

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:14:39 (3898)

2000-02-02 18:14:39# 125. lþ. 55.15 fundur 303. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:14]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í sjálfu sér er mjög eðlilegt að ræða þessa fyrirspurn í framhaldi af þeirri sem við vorum að fara yfir. Það er áhugavert að átta sig á því hvernig þær breytingar sem hafa orðið á samgöngum, á þjónustu, í því umhverfi sem fólk býr við hefur verið mætt af hálfu þeirra aðila sem eru að halda úti þjónustu um landið eins og hjá Íslandspósti. Ég held að það hafi verið í Hrísey í júlí 1998 sem fyrst var efnt til samstarfs af hálfu Íslandspósts og bankastofnunar sem er Sparisjóður Svarfdæla. Ég veit að miklar vonir voru bundnar við þetta samstarf og það hefur gengið mjög vel. Menn eru almennt mjög ánægðir, bæði með það að hafa með þessum móti haldið bankaþjónustu sinni og haldið póstþjónustu sinni.

[18:15]

Ég vék áðan að því hvernig fyrirkomulagið er úti í Grímsey og nú er ég búin að nefna báðar eyjarnar í mínu kjördæmi þar sem ég þekki til en víðar þar á hinum minni stöðum þar hefur einmitt verið efnt til samstarfs af slíku tagi til þess að verja þessa þjónustu.

Mér fannst hins vegar einhvern tíma í þingsölum að menn væru sér ekki meðvitaðir um breytingarnar og ákvað að gefa hæstv. samgrh. færi á því að útskýra fyrir þingheimi hvað væri að gerast í þessum efnum því að komið hefur verið að þessu með margvíslegu móti.

Hæstv. viðskrh. sagði okkur áðan frá því að væntanlega munum við sjá breytta löggjöf sem gerir það að verkum að menn geti haft þetta samstarf með nýjum hætti og jafnvel enn hagkvæmari fyrir aðila áður en langt um líður. En fyrirspurn mín til samgrh. þessi:

Hvar er Íslandspóstur kominn í samstarf um þjónustu og afgreiðslu við aðra? Hvernig er því samstarfi háttað og um hvaða aðila er að ræða á hverjum stað?