Póstþjónusta

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:23:26 (3902)

2000-02-02 18:23:26# 125. lþ. 55.15 fundur 303. mál: #A póstþjónusta# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:23]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. Jóni Bjarnasyni vakti athygli á því að frumkvæðið hefði komið frá sparisjóðunum en ekki Íslandspósti. Mátti draga þá ályktun af orðum hans að það bæri vott um að fremur væri þjónustulundin hjá sparisjóðunum en Íslandspósti. (JB: Nei.) Ég held að þetta sé ekki rétta skýringin, þetta sé ekki skýringin á þessu heldur hitt að Íslandspóstur er eins og við þekkjum stórt og mikið fyrirtæki sem er með rekstur og þjónustu um allt landið og ber rekstur sinn af sameiginlegum tekjum. Hins vegar verða sparisjóðirnir að standa og falla með þeim tekjum á mjög litlu upptökusvæði viðskiptanna ef svo mætti segja og eiga ekki annarra kosta völ en að leita allra leiða til hagkvæmni. Það held ég að hljóti að hafa verið undirrót þess að þeir leituðu eftir þessu samstarfi sem er mjög af hinu góða og ég held að sé dæmi um það hvernig hægt er í hinum dreifðu byggðum að snúast til varnar til þess að halda uppi þjónustunni sem fyrirspyrjandi og hv. þm. Jón Bjarnason hafa bent á að er mikilvæg. Undir það vil ég taka.

Ég tel að þetta frumkvæði og þessar staðreyndir um samstarf þessara aðila eigi að hvetja okkur á hinu háa Alþingi til að breyta lögum þannig að þetta megi auðvelda. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu og mér finnst það ekki geta verið sérstök ástæða til að bankalöggjöf komi í veg fyrir samstarf póstþjónustu og banka. Ég tel að þeir sem sinna póstþjónustunni sinni ekki veigaminni eða vandaminni störfum en þeir sem vinna í bönkum. Ég tel því að þetta fari mjög vel saman og mun beita mér fyrir því að Íslandspóstur leiti eftir samstarfi þar sem það er talið hagkvæmt.