Loftskeytastöðin á Siglufirði

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:29:20 (3904)

2000-02-02 18:29:20# 125. lþ. 55.14 fundur 248. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:29]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir þessa fyrirspurn. Hún hljóðar svo í fyrsta lagi: Er enn þá ætlun Landssíma Íslands að leggja niður loftskeytastöðina á Siglufirði? Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að þessi fyrirspurn var borin fram fyrir jól en í öllum þeim önnum sem þá voru komst hún ekki á dagskrá þannig að það er skýringin á því að þessu er ekki svarað fyrr en nú.

Svar mitt við þessari fyrstu spurningu er að þann 1. okt. 1997 fól þáv. samgrh. Póst- og fjarskiptastofnun að ganga til samninga við Landssíma Íslands hf. um að strandastöðvaþjónustu yrði skipt í neyðar- og öryggisþjónustu og símtala- og skeytaþjónustu.

[18:30]

Á grundvelli þessa var myndaður vinnuhópur er skilaði af sér skýrslu í maí 1998 um hvernig hagræða mætti í rekstri án þess að dregið yrði úr öryggi. Það var m.a. ráðgert að loftskeytastöðinni á Siglufirði yrði lokað 1. júní 1999. Talsverð umræða varð um hagræðingu í rekstri strandstöðva sem leiddi til þess að Landssími Íslands hf. ákvað að halda starfsemi á Siglufirði úti til 1. febrúar 2000. Fram að þessu hefur afgreiðsla strandstöðvarinnar á Siglufirði verið opin á daginn en tækjum verið fjarstýrt að næturlagi og um helgar. Á þeim tíma fluttist afgreiðslan til starfsmanna í stöðinni í Gufunesi en strandstöðin í Vestmannaeyjum er til vara eins og áður.

Ástæður þess að talið var æskilegt að hagræða starfsemi strandstöðva eru einkum fjórar. Í fyrsta lagi er tilkynningarskylda skipa að verða sjálfvirk. Í annan stað hefur alþjóðlegt fyrirkomulag neyðarfjarskipta verið tekið upp í siglingum, svokallað GMDSS-kerfi sem er alþjóðlegt neyðarfjarskiptakerfi. Í þriðja lagi er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að draga úr gífurlegu rekstrartapi þessarar þjónustu. Í fjórða lagi verður stöðugur samdráttur í notkun strandstöðva vegna annarra fjarskiptamöguleika, einkum farsíma. Engu að síður hef ég haft forgöngu um að gerður verði samningur við Landssíma Íslands sem felur í sér að þjónusta strandstöðva verður áfram við lýði á kostnað ríkissjóðs. Þannig er öryggi sjómanna tryggt enda verður strandstöðvunum hér við land stjórnað eftir ströngustu öryggiskröfum.

Í annan stað spyr hv. þm., með leyfi forseta:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir að störf sem nú eru unnin á höfuðborgarsvæðinu verði flutt til Siglufjarðar, í stað þeirra sem lögð verða niður?``

Því er til að svara að starfsmönnum strandstöðvar á Siglufirði mun lengi hafa verið ljóst að afgreiðsla loftskeytastöðvarinnar á Siglufirði yrði lögð niður. Við lokun stöðvarinnar voru starfsmenn aðeins þrír. Af þessu má sjá að raunverulega er ekki um umtalsverða fækkun að ræða þegar litið er á starfsmannafjölda þessa fyrirtækis í heild sinni. Á hinn bóginn er brýnt að á landsbyggðinni séu fjölbreytt störf í boði eins og við hv. þm. vitum allir. Með nýjum viðhorfum í fjarskiptum opnast viðskiptatækifæri sem allur almenningur hvar sem er á landinu getur nýtt sér. Þessi nýju viðskiptatækifæri gera það kleift að landsmenn, þar á meðal Siglfirðingar, geta tekið þátt í uppbyggingu nýrra starfa á Íslandi með þessa nýju tækni að vopni. Það er ástæða til að vekja athygli á því að á síðasta einu og hálfu ári fjölgaði starfsmönnum Landssímans um hundrað og þar af um fjörutíu úti á landi. Vandinn hefur hins vegar legið í því að ekki hefur verið hægt að koma beint til móts við þá starfsmenn sem misstu stöður sínar á Siglufirði.

Í þriðja lagi spyr hv. þm., með leyfi forseta:

,,Telur ráðherra að nútímatækni í fjarskiptum geri kleift að vinna ýmis störf á vegum Landssímans utan höfuðborgarsvæðisins þar sem húsnæði er nægilegt og mikið framboð af sérþjálfuðu starfsfólki?

Því er til að svara að möguleikar landsbyggðarinnar til að byggja upp atvinnugreinar byggðar á nútímatækni í fjarskiptum eru nú meiri en nokkru sinni fyrr. Eins og þingmaðurinn bendir á er húsnæði þar nægilegt og mikið framboð af sérþjálfuðu starfsfólki. Af þeirri ástæðu hafa fyrirtæki nú í vaxandi mæli flutt starfsemi sem byggir á upplýsingatækni út á land. Landssími Íslands er þar engin undantekning eins og ég gat um í svari mínu við öðrum lið fyrirspurnarinnar.