Loftskeytastöðin á Siglufirði

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 18:38:04 (3907)

2000-02-02 18:38:04# 125. lþ. 55.14 fundur 248. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[18:38]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að það hefur reynst þrautin þyngri einnig hjá einkafyrirtækjum að flytja fjarvinnsluverkefni og verkefni út á land. Við þekkjum það að Íslensk miðlun hefur unnið þar ágætt starf en starfsstöðvar hennar standa tómar. Þetta er því ekki eins einfalt og menn kannski halda. Það er ekkert viljaleysi á ferðinni hér eins og hv. þm. Jón Bjarnason sagði og hugmyndina um að flytja Póst- og fjarskiptastofnun til Siglufjarðar má svo sem skoða. En það hefði verið betra að stofna hana á Siglufirði fremur en að rífa hana upp eftir að henni hefur verið komið á stofn. En hvað um það. Hugmyndin er komin fram.

Vegna þess að hv. fyrirspyrjandi sagði að mennirnir hefðu hætt vegna þess að búið hefði verið að tilkynna um lokunina með fyrirvara þá vil ég rifja það upp að forveri minn, hv. þm. Halldór Blöndal, þáv. samgrh., hafði lagt sig mjög fram um að finna leiðir til að hægt væri að halda þessari starfsemi úti. Hann hafði mikinn vilja til þess.

Ég vil að lokum segja frá því að í október í haust skrifaði ég öllum stofnunum sem heyra undir samgrn. og sömuleiðis þeim tveimur fyrirtækjum sem á vegum samgrn. starfa, þ.e. Íslandspósti og Landssímanum. Ég skrifaði stjórnum þessara fyrirtækja og stofnununum bréf og óskað eftir því að allra leiða yrði leitað til að færa störf þessara stofnana út á land og ef ný verkefni vöknuðu yrði reynt að vinna þau úti á landi og hvert tækifæri notað til að færa störf til stofnana úti á landi. Ég hef mikinn vilja til að leita eftir þessu og mun að sjálfsögðu fylgja því eftir. En allt gengur náttúrlega út á að verkefni séu til staðar.