Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:30:40 (3909)

2000-02-03 10:30:40# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:30]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Þegar Hæstiréttur felldi sinn dóm í svokölluðu kvótamáli í desember 1998 greindi menn sannarlega á um hvað út úr þeim dómi mætti lesa. Margir og m.a. sú sem hér stendur voru á þeirri skoðun að sú röksemdafærsla sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að ef 5. gr. sem fjallar um veiðileyfin væri ósamrýmanleg jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar hlyti það sama að eiga við um 7. gr. sem fjallar um úthlutun varanlegra aflahlutdeilda, enda hvor tveggja rétturinn tengdur fyrra eignarhaldi á skipum. Í upphafi þessa árs var sú skoðun síðan staðfest í svokölluðum Vatneyrardómi.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við kvótadóminum fyrir um ári og þær lagabreytingar sem fylgdu í kjölfarið voru hreint ekki rökréttar og sannarlega var það upplifun fyrir þjóðina núna að fylgjast með viðbrögðum stjórnvalda, hvernig hæstv. forsrh. mætti niðurstöðum Vatneyrardómsins með heimsendaspám og birti þjóðinni þá sýn að hér yrði allt ein rjúkandi rúst ef Hæstiréttur staðfesti. Já, ef forréttindi þeirra sem einokað hafa aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar yrðu í einhverju skert var greinilega mikil vá fyrir dyrum. Engar voru þó hugmyndirnar um það hvernig mætti bregðast við til að tryggja starfsgreininni traustara starfsumhverfi. Nei, öll viðbrögð tóku mið af þröngri hagsmunagæslu gagnvart þeim sem notið hafa góðs af óbreyttu kerfi. Ef ekkert er að gert getur auðvitað skapast hér óvissu\-ástand og öngþveiti ef niðurstaðan verður sú að allir megi róa og að þær reglur sem nú gilda séu ekki boðlegar. En einmitt þess vegna þarf að bregðast við með ábyrgum hætti.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar í sjútvn. lögðum til á fundi nefndarinnar þann 7. janúar sl. að nefndin legði í það vinnu að láta skoða þær aðferðir við úthlutun aflahlutdeilda sem samrýmst gætu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að Alþingi tækist þannig á við það verkefni að undirbúa breytingar á 7. gr. svo koma mætti í veg fyrir frekari óvissu og öngþveiti. Þessi tillaga var studd af öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni en hlaut ekki náð fyrir augum stjórnarmeirihlutans. Það er miður en hvað sem nefndinni líður hlýtur hæstv. sjútvrh. að vera það ljóst að svigrúmið til að bregðast við ef Hæstiréttur staðfestir Vatneyrardóminn verður afar þröngt og hætt er við að fólkið í landinu hafi litla þolimæði gagnvart þeim sem til þessa hafa einokað auðlindina í skjóli laga ef Hæstiréttur staðfestir að í úthlutun varanlegrar aflahlutdeildar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga um stjórn fiskveiða felist sama mismunun tengd fyrra eignarhaldi á skipum og Hæstiréttur dæmdi ósamrýmanlega jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar í áður nefndum kvótadómi.

Þrátt fyrir þann ríka og margítrekaða vilja hæstv. forsrh. að slá skjaldborg um þá sem hafa makað krókinn á óbreyttu kerfi, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ekki birt þjóðinni neinar hugmyndir um það hvernig takast mætti á við nýjar aðstæður og þrátt fyrir að hugmyndum sem aðrir hafa verið að setja fram um lausn mála hafi verið vísað á bug jafnvel með stóryrðum og hroka, þrátt fyrir allt þetta verður því ekki trúað að stjórnvöld og hæstv. sjútvrh. sem fer með framkvæmd laga sem dæmd hafa verið andstæð stjórnarskrá sýni það ábyrgðarleysi gagnvart atvinnugreininni að leita ekki leiða til að eyða þeirri réttaróvissu sem nú er og verður reyndar áfram hver sem niðurstaða Hæstaréttar verður og setur svip sinn á alla umfjöllun um sjávarútveg. Ég hef því óskað eftir því að hæstv. sjútvrh. geri okkur grein fyrir eftirfarandi:

Munu stjórnvöld bregðast við með einhverjum hætti áður en dómur fellur í Hæstarétti um svokallaðan Vatneyrardóm og ef það verður gert, hver verða þá viðbrögð stjórnvalda?

Ef ekki á að bregðast við áður en dómur fellur, hvaða leiðir sér þá hæstv. sjútvrh. ef Hæstiréttur staðfestir dóminn?