Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:40:43 (3912)

2000-02-03 10:40:43# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:40]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Núverandi fyrirkomulag á úthlutun aflaheimilda er þess eðlis að segja má að Alþingi Íslendinga hafi heimilað sjútvrh. að afhenda fáum útvöldum hluta af mannréttindum fólksins í sjávarþorpunum kringum Ísland. Alþingi hefur líka heimilað þessum fáu útvöldu að selja þau mannréttindi. Atvinnuréttindi fólksins í sjávarbyggðunum ganga nú kaupum og sölum.

Verðlag á þessum mannréttindum, atvinnufrelsi fólksins í sjávarþorpunum, hefur tekið mið af spákaupmennsku og jaðarviðskiptum. Veiðiheimild á óveiddum þorski er seld á leigumarkaði á jafnvel hærra verði en fæst fyrir aflann eftir að hann hefur verið sóttur á haf út.

Þetta brask með mannréttindin og atvinnufrelsið gengur oftast hjá aðdáendum kvótabrasksins undir nafninu ,,hagræðing``. Með hagræðingu er átt við að hagkvæmt sé fyrir útvalda að fá að selja mannréttindi annarra til að braska með að eigin geðþótta.

Aldrei tala sægreifar um að fórnirnar með slíkri millifærslu mannréttinda voru að eigur almennings í sjávarþorpunum voru gerðar nánast verðlausar og atvinnan hvarf.

Kíkirinn er settur fyrir blinda augað meðan eigur þúsunda fjölskyldna allt í kringum Ísland hafa verið gerðar verðminni og atvinnuleysi fólks tekið við. Hvers eiga sjómenn t.d. að gjalda sem fá ekki að stunda fiskveiðar þó að það hafi verið atvinna þeirra áratugum saman vegna þess að forgangshópar gjafakvótans eiga einir réttinn á óveiddum fiski?

Stóra spurningin sem ekki virðist mega ræða er þessi: Er hægt að selja mannréttindi með þessum hætti? Er það löglegt? Má gera eigur almennings í dæmigerðu sjávarþorpi verðlitlar? Er ekki tímabært að sjútvn. Alþingis taki til hendinni og fari að vinna af meiri ábyrgð í þessum grundvallaratriðum og stjórnarflokkarnir hætti í sínum látbragðsleik með meiri hluta sjútvn. Alþingis? Á sú nefnd ekki einmitt nú að taka til hendinni þegar framkvæmdarvaldið er í annað sinn á rúmu ári með löggjöf um stjórn fiskveiða í uppnámi?