Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:42:52 (3913)

2000-02-03 10:42:52# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:42]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Dómurinn í Vatneyrarmálinu er eðlilegur í ljósi dóms Hæstaréttar í máli Valdimars Jóhannessonar frá því í fyrra. Því ættu menn að efast um visku stjórnvalda sem túlkuðu þann dóm og framfylgdu honum á þeim grundvelli að það hefði verið brot á stjórnarskránni, brot á jafnræðisákvæðum hennar og brot á atvinnufrelsisákvæðum hennar ef menn fengju ekki veiðileyfi á skipin sín. Og nú geta allir sem eiga bát fengið slík veiðileyfi til að hengja upp á vegginn hjá sér og stjórnarskráin því í fullum heiðri höfð, eða hvað? Þessir nýju sægreifar fá ekki einu sinni að veiða einn einasta fisk en búið er að fullnægja rétti þeirra gagnvart stjórnarskránni.

En úr því að þetta var rétt niðurstaða hvað varðaði veiðileyfin og um það eru ekki deilur, hverjum dettur þá í hug að þegar kemur að hinum raunverulegu réttindum til að veiða fisk, þá þurfi ekki að hafa jafnræði og atvinnufrelsi í heiðri? Jú, stjórnvöldum á Íslandi dettur það greinilega í hug. Viðbrögð þeirra við dómnum í Vatneyrarmálinu hafa sýnt svo ekki verður um villst að ekkert er að marka loforðin í síðustu kosningabaráttu um að leitað yrði sátta í þessu mesta deilumáli margra síðustu ára.

Hæstv. forsrh. mætti í sjónvarpið eftir fréttirnar á dómnum og vakti forundran og hneykslan í landinu með framferði sínu. Hann lét eins og dekraður strákur sem kastar sér í gólfið og lemur niður löppunum þegar hann fær ekki sínu framgengt. Hann spáði hruni efnahagslífsins og gerði kanarífuglinn að skjaldarmerki Sjálfstfl.

Hæstv. sjútvrh. skilar sjálfur auðu í þessu máli en kallar fram komnar tillögur um leigukvóta skattheimtu á sjávarútveginn. Ég vil spyrja hann og ég fer fram á að hann svari: Ef tillögur um leigukvóta eru skattheimta á sjávarútveginn, er þá núgildandi fyrirkomulag framsal skattlagningarvalds til útgerðarinnar?