Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:45:25 (3914)

2000-02-03 10:45:25# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Fyrir um ári síðan ákvað Alþingi að fram skyldi fara gagnger endurskoðun á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Hæstv. sjútvrh. skipaði sérstaka nefnd á liðnu hausti skipaða fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu til þess að fara ofan í þessi mál. Svo kemur stjórnarandstaðan hingað og segir að nú eigi að hefja þessa endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni sem er í fullum gangi. Þessi vinna stendur yfir. Einn burðarmesti þáttur þess máls er 7. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem verið var að taka afstöðu til í þessum fræga Vatneyrardómi. Auðvitað er sú nefnd sem er að vinna að endurskoðun fiskveiðistjórnarlöggjafarinnar að fjalla um það mál eins og önnur mál. Eðlilegast er að halda þessu áfram í þessum farvegi alveg eins og ríkisstjórnin hefur lagt til og var niðurstaða sjútvn. á sínum tíma. (Gripið fram í.)

Nú skulum við aðeins fara yfir þetta mál. Um hvað erum við að fjalla? Um hvað snýst þessi deila sem við erum að ræða? (Gripið fram í: Um peninga.) Hún snýst fyrst og fremst um spurninguna um veiðiréttinn, hvort það eigi að skilgreina þennan veiðirétt og þá hvernig. Sumir hafa talað um að eðlilegast sé að gera það á grundvelli uppboða og nýlega var skilað áliti sem kvað á um að allt að 20% eða fimmtungur aflaheimildanna eigi að fara á uppboð. Hvaða áhrif halda menn að það hefði? Ég held að þessi spurning um veiðiréttinn eigi ekki eingöngu að snúast um það sem menn hafa kallað á tyllidögum jafnræðisregluna. Hún á líka að snúast um það hvernig við viljum tryggja veiðiréttinn þannig að hann komi sem best að notum fyrir byggðirnar í landinu alveg eins og kveðið er á um í fiskveiðistjórnarlögunum. Ég held að það væri ekki óeðlilegt að menn reyndu líka í þessari umræðu að beina sjónum sínum í ríkari mæli að þessari spurningu sem er auðvitað grundvallarspurningin, þ.e. hvernig við ætlum að reyna að tryggja að veiðirétturinn skili sem mestum arði og mestum ábata fyrir byggðirnar í landinu, en ekki bara um það sem menn hafa gert að aðalatriði, að afla fjár fyrir ríkissjóð.