Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:53:58 (3918)

2000-02-03 10:53:58# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:53]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Hvar eru framsóknarmennirnir sem eiga að vera talsmenn kvótakerfisins og hvar eru þeir núna við þessa umræðu? Þeir eru einhvers staðar í burtu.

Þeir sem komust að niðurstöðu í Vatneyrardómsmálinu stóðu sig vel. Þeir sýndu kjark. Þeir sýndu áræði og réttsýni að mínu mati þvert á aðgerðarleysi og stefnuleysi hæstv. ríkisstjórnar. Það hefur ríkt allt frá því að svonefndur Valdimarsdómur var kveðinn upp. Þá gerði hæstv. ríkisstjórn þær minnstu breytingar sem komast mátti af með og með því var viðhaldið óvissu og óbreyttri framkvæmd fiskveiðistjórnarkerfisins og íslensk þjóð hefur fengið yfir sig nóg af þeirri framkvæmd.

Menn heyrðu hvað hæstv. sjútvrh. sagði rétt áðan. Hann vill óbreytt kerfi. Hann vill kerfi þar sem einstaklingar geta gengið út með milljarða. Hann vill kerfi sem býður upp á að töskubankastjórar eru komnir á kreik í Reykjavík sem sýsla með fjármuni sem koma úr kvótakerfinu.

Hvað vilja landsmenn? Framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar brennur á landsmönnum og þeir gera kröfu um breytingu sem aflétti eignarhaldi og komi í veg fyrir brask og að séð verði til þess að brottkast verði takmarkað við ónýtar afurðir og verðlausar. Þetta þýðir að allan veiddan fisk skuli færa til hafnar og að öll raunveruleg verðmæti eiga að koma í land. Ég tel að hv. Alþingi verði að sýna röggsemi og taka á málinu áður en Vatneyrardómurinn kemur fyrir Hæstarétt. Það er rétt að benda á að sama er hver niðurstaðan verður, óeirðir munu brjótast út á Íslandi vegna þessa ósættis um framkvæmd fiskveiðistjórnarinnar.