Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 10:58:16 (3920)

2000-02-03 10:58:16# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[10:58]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason fór yfir það áðan hver staðan gæti orðið ef Hæstiréttur staðfestir Vatneyrardóminn. Eigi að síður er það mat hæstv. sjútvrh. að ekki séu forsendur til að bregðast við fyrr en dómur liggur fyrir.

Herra forseti. Að bregðast við getur þýtt margt, m.a. það að menn sinni nauðsynlegum undirbúningi eins og þeim sem við fulltrúar Samfylkingarinnar í sjútvn. lögðum til. Því var ekki sinnt.

Herra forseti. Það eru vissulega forsendur fyrir því að fara í þessa vinnu hvernig sem dómur Hæstaréttar verður. Það kemur nefnilega til með að ríkja réttaróvissa áfram. Það kemur til með að ríkja óvissa um stöðu sjávarútvegsins hvernig sem dómur fellur vegna þess að það er ljóst og viðurkennt af öllum að það ríkir slíkt ósætti um það fyrirkomulag sem nú er við lýði að á því verður að taka.

Það er nefnd að vinna. Það er rétt. En hún verður ekki búin að skila áður en dómur fellur. Þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt að Alþingi takist á við þetta mál. Nefnd sem kosin er af Alþingi er ekki afsökun fyrir Alþingi sjálft. Hún er ekki fjarvistarsönnun.

Herra forseti. Það er merkilegt að Framsfl. skuli hins vegar vera með fjarvist í salnum í dag og manni dettur í hug að þessi staðreynd sýni e.t.v. það sem okkur hefur sýnst að gæti verið ósætti um það hvernig eigi að takast á við þetta mál, þ.e. að þar á bæ séu menn ekki á einu máli um hvernig beri að bregðast við.

Herra forseti. Sjávarútvegurinn þarf miklu frekar en aðrar atvinnugreinar á traustu starfsumhverfi að halda. Það er þess vegna fullkomið ábyrgðarleysi af hæstv. sjútvrh. og stjórnvöldum að bregðast ekki við eins og hér hefur verið lýst að þyrfti að gera.