Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:00:43 (3921)

2000-02-03 11:00:43# 125. lþ. 56.94 fundur 278#B Vatneyrardómurinn og viðbrögð stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:00]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það hefur komið fram hjá nokkrum hv. ræðumönnum að sjútvrh. ætti að bregðast við dómi Héraðsdóms Vestfjarða áður en dómur gengur í Hæstarétti og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir, ekki að taka sénsinn. En það sem ég vil vita er við hverju ég á að bregðast áður en ég geri eitthvað því það er Hæstiréttur sem er endanlegur dómari í þessu máli en ekki Héraðsdómur Vestfjarða. Málinu hefur verið áfrýjað og mun þar af leiðandi koma til kasta Hæstaréttar og eftir dómi Hæstaréttar mun ég bíða.

Menn hafa þóst lesa heilmikið út úr 5. greinar dómi Hæstaréttar frá því í desember 1998 og það er út af fyrir sig gott að menn rýni í hann og skoði hann. En sá dómur fjallar bara ekki um 7. gr. eins og Vatneyrardómurinn svokallaði gerir. Í tvígang hefur fallið dómur í héraðsdómi, bæði Héraðsdómi Reykjavíkur og eins í Héraðsdómi Vestfjarða þess eðlis að Hæstiréttur hafi ekki verið að fjalla um 7. gr. í desember 1998.

Það hefur einnig komið fram hér í umræðunum að ríkisstjórnin hafi ekki ætlað sér að leita víðtækari sátta varðandi fiskveiðistjórnina eins og fram hefur komið í yfirlýsingum forustumanna stjórnarinnar og í stjórnarsáttmálanum. Þetta er auðvitað kolrangt og úr lausu lofti gripið eins og nefndaskipan undanfarinna mánaða sýnir og það starf sem í gangi er. Það má raunar segja að starf hafi verið í gangi í nærri tvö ár við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar en að dómstólar hafi að vissu leyti í tvígang gripið inn í það og orðið til þess að sú vinna frestaðist.

Hv. þm. Gísli S. Einarsson vildi gera mér upp skoðanir í ræðu sinni. (Forseti hringir.) Ég er einfær um að lýsa þeim sjálfur, en þakka honum samt kærlega fyrir. Hann sagði að þeir sem kváðu upp (Forseti hringir.) Vatneyrardóminn, herra forseti, hefðu verið hugrakkir menn. Ég vil benda honum á (Forseti hringir.) að einungis einn dómari kvað upp þennan dóm. En 63 þingmenn greiddu atkvæði um fiskveiðistjórnarlögin eins og þau eru í dag.