Utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:13:54 (3929)

2000-02-03 11:13:54# 125. lþ. 56.91 fundur 275#B utandagskrárumræður og viðvera stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:13]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kom með þá hógværu beiðni að forseti beitti sér fyrir því að umræða færi fram innan stjórnarflokkanna um þessa stofnun, lýðræði og málfrelsi sem hér á að vera og tek undir það að þetta er mikilvægur vettvangur skoðanaskipta.

Ég kvaddi mér hljóðs á ný til að taka það sérstaklega fram hvað ég er ánægð með að forseti Alþingis verður ljúflega við beiðnum um þessar hálftímaumræður og fyrrv. forseti, enda beindist ábending mín ekki til hans.

Ég heyri það að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir er að mæla því bót að þingmenn stjórnarliðanna eru að gagnrýna væntanlega þá ákvörðun forseta að hann kveður upp úr með að umræðuefnið sé utandagskrárumræðuefni. Ég lít á þessar hálftímaumræður sem mjög mikilvægan þátt í skoðanaskipum hér og til halda uppi einmitt því sem hér hefur verið bent á. Ég óska eftir því að þær verði eins oft og þurfa þykir, að hér verði frjó umræða, ekki síst um þau mikilvægu mál sem brenna á fólki í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í annað sinn sérstaklega til að geta þess hve forseti hefur orðið vel við beiðnum um utandagskrárumræður og vona að svo verði áfram en tel mikilvægt að allir þingmenn geri sér grein fyrir til hvers við erum hér í þessu húsi að ræða þjóðmál og þingmál.