Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 11:46:15 (3937)

2000-02-03 11:46:15# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[11:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að fram hafi komið að það sem hv. þm. sagði um Þorstein Vilhelmsson í fyrri ræðu sinni hafi verið sagt honum sérstaklega til hróss. Ég er ánægður yfir því.

Hv. þm. segir hér á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

,,Viðkvæmustu byggðirnar verði í upphafi styrktar sérstaklega með fjárframlögum eða sérstakri kvótaúthlutun.``

Ef þetta er ekki styrkur til sjávarútvegs, þá veit ég ekki hvað þetta er. Hv. þm. hefur sennilega ekki verið með sjálfum sér þegar hann skrifaði þetta.

Hér stendur á öðrum stað, með leyfi hæstv. forseta:

,,Augljóst virðist að smábátaútgerðin í landinu yrði meira en samkeppnisfær á þessu verði. Því væri skynsamlegast fyrir stóru útgerðirnar að selja frá sér eitthvað af árlegum veiðiheimildum, leigja skipin og hætta veiðum og sýna margfaldan hagnað!``

Með þessu er hv. þm. að segja berum orðum að þetta kerfi eins og það er hugsað af hans hálfu muni torvelda togaraútgerð við Ísland. Hið sama sagði hann raunar í ræðu sinni áðan þegar hann talaði um að allir þeir sem vildu eignast smábáta gætu fengið svo mikinn þorskafla sem þeir vildu því að þeir væru samkeppnishæfari en togararnir. Fyrir honum vakir með öðrum orðum að ná fram einhverju því kerfi sem leggur togaraútgerð okkar Íslendinga í rúst. Ummæli hans verða ekki skilin öðruvísi og þýðir ekki fyrir hann nú að hrista höfuðið. Ef ummæli hans hafa ekki þýtt þetta þá er mér ekki ljóst við hvað hann átti. Hugmyndir af þessu tagi er auðvitað hægt að setja fram af léttúð. Að mínu viti er hins vegar fullkomlega óábyrgt að hræra í þessari umræðu á þann hátt að enginn skilur upp né niður í því sem maður er að segja.