Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:00:53 (3941)

2000-02-03 12:00:53# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:00]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þm. að fullkomlega frjáls eftirmarkaður eigi að vera á þessum veiðiheimildum þannig að hver og einn geti keypt, jafnvel útlendingar. Þá er það bara spurningin hver geti veitt ódýrast. Ég treysti nefnilega Íslendingum, íslenskum sjómönnum og íslenskum útgerðarmönnum, betur en útlendingum til að veiða miklu ódýrar við Íslandsstrendur. Það er traust sem ég ber til íslenskrar útgerðar og íslenskra sjómanna.

Varðandi eignarréttinn og afnotaréttinn, þá yrði það mjög þörf umræða. Því miður gefst ekki möguleiki á að fara í gegnum hana í stuttu andsvari.

Hvort við séum með verkaskipt þjóðfélag? Við erum vissulega með það. Hvort réttarstaða þeirra sem stundað hafa útgerð eigi að vera engin umfram hina? Hvað með t.d. kaupmanninn á horninu í Reykjavík? Hvar er atvinnuréttur hans? Af hverju verður hann að hætta jafnvel með gjaldþroti? Hvar er atvinnuréttur hans til að fá að stunda starf sitt sem kaupmaður á horninu?

Ef við tökum sem dæmi leigubíla, lækna og því um líkt þá erum við líka með andstæð sjónarmið sem er neytendavernd. Við viljum t.d. takmarka aðgang manna að læknastéttinni af því að við viljum ekki láta hvern sem er skera okkur upp. Þarna stangast því á andstæð sjónarmið og ég geri ráð fyrir að leigubílatakmörkunin sem er þó ekki alls staðar til, ekki í öllum löndum, sé af sama toga, þ.e. neytendaverndin vegur þyngra.

Það að skipta kvótanum á íbúa sveitarfélaga kæmi vel til greina. Ég fór einmitt í gegnum það í grg. að það leiðir til svindls vegna þess að fólk getur skráð sig í sveitarfélög og ekki búið þar og menn hafa leikið þann leik. En það er svo erfitt að henda reiður á því hverjir búa í sveitarfélaginu og hvort þeir hafi skráð sig í sveitarfélögin til að fá kvótann eða hvort þeir raunverulega búa á staðnum. Þetta þekkjum við og hefur komið upp aftur og aftur og þess vegna er það rökstutt í grg. að ef á að styrkja byggðirnar, þá eru það sveitarfélögin sem verða að fá styrkinn.