Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:09:32 (3945)

2000-02-03 12:09:32# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef oft áður heyrt hv. þm. útskýra að skilgreina þurfi afnotaréttinn af fiskstofnunum. Ég taldi í einfeldni minni að hann væri líka að láta að því liggja að þar þyrfti að taka til hendinni og finna niðurstöðu, en þegar hann nefndi leigubílana, líklega til að benda á eitthvert dæmi, þá kom mér auðvitað í hug eins og kannski flestum öðrum að ekki hefur verið lýst yfir þjóðareign á leigubílaakstri á Íslandi. Ég vil líka taka fram annað, ég tel alls ekki einsýnt að einkaréttur eigi að vera á því að keyra leigubíl á Íslandi. Ég tel það reyndar brjóta í bága við eðlilegar reglur um að allir eigi að hafa rétt til að stunda atvinnustarfsemi í frjálsu samfélagi á Íslandi. Og reglur aðrar en fjöldatakmarkanir eða eitthvað slíkt sem taka tillit til menntunar eða annarra krafna sem eiga eðlilega að liggja að baki slíkum réttindum eða leigu, eigi síðan að sjá til þess að þjónustan sé í lagi.

Ég tel að ekki sé undan því vikist í þeirri umræðu sem nú fer fram um sjávarútvegsmál að menn segi nákvæmlega hvað þeir eigi við. Ég er þess vegna að biðja hv. þm. að útskýra núna fyrir okkur því að nú er kannski meiri ástæða til að spyrja um þessi mál en oft áður: Hvernig skilgreinir hann afnotarétt útgerðarinnar að fiskimiðunum, aðganginum að fiskimiðunum? Hvað telur hann að eigi að liggja að baki því að menn fái úthlutað veiðiheimildum?