Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:11:33 (3946)

2000-02-03 12:11:33# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er albúinn í umræður um þessi mál við hv. þm. en þarf helst meira en tvær mínútur í andsvari við ræðu sem ég flutti um tillögu hv. þm. Péturs Blöndals til að útskýra grundvallarviðhorf mín í þeim efnum og tala fyrir stefnu þeirrar stjórnmálahreyfingar sem ég er í forsvari fyrir.

Mér er alveg mætavel ljóst að kúnnarnir hjá leigubílstjórum í Reykjavík eru ekki þjóðareign, enda var ég ekki að leggja þá hluti að jöfnu og ég bið hv. þm. að varast að oftúlka orð eða leggja mönnum orð í munn eða lesa annað út úr orðum þeirra en hér er mælt. Ég var ekki að leggja kvótakerfið í sjávarútvegi að jöfnu við leigubílatakmarkanir í Reykjavík, en ég var að benda á og nefna nokkur dæmi um margs konar takmarkanir og/eða atvinnuréttindi og atvinnuvernd sem er við lýði í þjóðfélaginu af ýmsum toga. Ég var að reyna að draga inn í umræðuna spurninguna um stöðu annarra aðila í sjávarútvegi en þeirra sem fengu öll réttindin. Ég hef í 16 ár einmitt gagnrýnt það að þegar þetta kerfi var sett á var ekkert jafnvægi innleitt í það milli þeirra helstu hagsmunaaðila sem hafa byggt greinina upp og gera að nokkru leyti enn. Það þarf enginn að fara í grafgötur um afleiðingarnar af því. Völdin hafa öll legið hjá útgerðinni síðan þetta gerðist vegna þess að þar liggur rétturinn. En réttur annarra sem auðvitað voru og eru eða þyrftu að vera alveg jafngildir aðilar í þessu máli var fyrir borð borinn. Þess vegna eru deilur sjómanna og útgerðarmanna um samskipti sín af því að réttarstaða sjómannanna er öll önnur og lakari í kerfinu heldur en útgerðarinnar sem hefur réttinn. Þess vegna gengur jafnmikið á hlut landvinnslunnar og raun ber vitni vegna þess að hún er réttlaus gagnvart útgerðinni sem hefur kvótann. Þess vegna er óöryggi sjávarútvegsbyggðanna eins og það er og þá er náttúrlega sú spurning uppi: Er þar þá enginn réttur sem við þurfum að líta til? Eru þar ekki hagsmunir sem þjóðfélagið þarf líka að líta til og verja?