Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:14:05 (3947)

2000-02-03 12:14:05# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tæki ofan fyrir hv. þm. Pétri Blöndal ef ég hefði eitthvað á höfðinu fyrir að leggja fram þessa tillögu á hv. Alþingi því að töluvert þarf til að undirbúa svona mál og líka þarf töluvert til að taka á móti þeim köldu kveðjum sem menn fá ef þeir voga sér að koma fram með hugmyndir um breytingar á því kerfi um stjórn fiskveiða sem hefur verið við lýði í mörg ár.

Ég lagði fram tillögu einu sinni í hv. Alþingi um breytingu á þessu kerfi og man vel eftir umræðunni um hana. Hún fékk frekar kaldar kveðjur, ég á því von á að slíkt muni halda áfram á meðan menn eru að verja eignarhaldið á veiðiheimildunum á miðunum við Ísland. Þetta segir ekki að ég sé sammála hv. þm. um þá aðferð sem hann er að leggja til að verði viðhöfð. Ég er þó sammála honum um grundvallaratriðið á bak við tillögu hans en það felst í því að eignarhaldið á veiðiheimildunum eða veiðiréttinum við Ísland sé sameiginleg eign okkar og við eigum að hafa við lýði kerfi sem tryggir það að allir Íslendingar eigi þennan rétt saman og að atvinnugreinin útgerð sé opin þeim sem vilja vera útgerðarmenn á Íslandi og vilja reyna sig í samkeppninni í þeirri atvinnugrein. Þetta eru þau grundvallaratriði sem ég tel að við séum algerlega sammála um.

[12:15]

Síðan er ástæða til að velta fyrir sér hvernig eigi að leysa það vandamál sem er uppi um eignarhaldið á auðlindinni eins og það liggur núna fyrir. Það hefur verið skoðun mín að til þess þurfi ákveðinn aðlögunartíma. Ég hef talið að mjög erfitt væri að láta nýja tilhögun taka gildi á einum degi. Þess vegna finnst mér afar óábyrgt hjá stjórnvöldum núna þegar yfir vofir að dómur komi í Hæstarétti að bíða þess dags sem dómurinn fellur og ætla þá að bregðast við því að ég efast ekki um að þann dag sem Hæstiréttur mundi staðfesta dóm af því tagi sem var kveðinn upp í Vatneyrarmálinu muni verða kaflaskipti í afstöðu almennings til þessa máls. Menn munu ekki vera afskaplega hrifnir af því að réttindi sem Hæstiréttur hefur dæmt af þeim sem stunda nú útgerð á Íslandi yrði rétt þeim til baka sisvona og sagt: Nú skulið þið bara hafa 10, 15, 20 ár í aðlögun að nýrri og breyttri skipan.

Ekki má taka orð mín svo að ég sé að halda því fram að ekki væri hægt að finna einhverja leið sem réttarkerfið mundi skrifa upp á. Ég er að tala um hina pólitísku niðurstöðu og þá samúð sem þjóðin hefði þá með þeirri niðurstöðu sem fengist. Ég er sannfærður um að eftir slíkan dóm yrði samúð almennings miklu minni með því að gefa nægilega langan aðlögunartíma að breyttu kerfi. Þess vegna tel ég að það sé afar mikið áhyggjuefni að stjórnvöld skuli tala með þeim hætti sem nú er gert, það skuli bíða dóms Hæstaréttar og síðan skuli bara sjá til hvað gerist.

Óhjákvæmilegt er að nefna þessa hluti vegna þess að allt sem nú gerist hvað varðar stjórn fiskveiða hlýtur að verða að hugsa út frá því að þessi dagur geti runnið upp innan skamms. Ég tel að tillaga hv. þm. Péturs Blöndals dugi ekki til að koma í staðinn fyrir það kerfi sem nú gildir falli dómurinn í þessa átt. Þar er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að kanna kosti og galla á þeirri tillögu sem hér er lögð til. Hún er öll saman vel útfærð og allt það, en ég býst við að til þess þurfi býsna langan tíma. Síðan þyrftu menn auðvitað að gera upp við sig hvenær og hvernig menn settu þetta á því að aðlögunin sem þyrfti að vera að kerfinu verður að vera öllum ljós og það þarf að vera hægt að sjá til þess, hvort sem þessi breyting yrði á lögunum um stjórn fiskveiða eða einhver önnur, að atvinnurekstrinum sem slíkum verði ekki stefnt í voða. En það sem ég sakna í allri umræðunni er að menn þori að koma með ábyrgum hætti fram og ræða um aðalatriði málsins. Aðalatriði málsins er eignarrétturinn. Um það eru átökin.

Þeir sem vilja breyta stjórnkerfi fiskveiða í raun og veru, vera á móti sjálfu kvótakerfinu og líka á móti eignarréttinum, vilja gera tvær byltingar í einu. Ef kollvarpa á bæði kvótakerfinu sem slíku og líka að taka á eignarréttarvandamálinu þýðir það að við erum að gera tvær byltingar í einu. Ég held að það sé ekki skynsamlegt. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu eftir að hafa tekið þátt í umræðum um þessi mál býsna lengi að ekki sé skynsamlegt að gera báðar byltingarnar í sama skiptið. Ég held að við eigum að nýta kvótakerfið áfram og gera breytingar sem nægja til þess að það uppfylli jafnræðis- og atvinnuréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Auðvitað er þetta hægt. Hægt er að benda á ýmsar leiðir til að gera það með markaði þar sem allir útgerðaraðilar hafa jafnan aðgang að og á nægilega löngum aðlögunartíma til að kollvarpa ekki þeim fyrirtækjum sem nú eru í sjávarútvegi.

Ég hef þá skoðun að affarasælast væri fyrir alla sem eru að berjast gegn eignarhaldsfyrirkomulaginu í kvótakerfinu að sameinast um slíka leið því að um leið og við erum búin að vinna þann slag um eignarréttinn opnast allt aðrir og betri möguleikar til að ræða um sjálft stjórnkerfi fiskveiðanna og þá galla og þær breytingar sem þyrfti að gera á því.