Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:22:23 (3948)

2000-02-03 12:22:23# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:22]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Tillaga hv. þm. Péturs Blöndals um breytingar á stjórnun sjávarútvegsmála kemur fram í annað eða þriðja sinn, endurbætt í hvert sinn, en hugmyndirnar alltaf þær sömu, að öllum aflaheimildum þjóðarinnar verði úthlutað á hvert mannsbarn.

Menn hafa rekið upp stór augu þegar þeir hafa reynt að rýna í þessar tillögur og átta sig á því hvað er í rauninni verið að meina. Margir hafa líkt þessu við mestu sósíalíseringu sem uppi hefur verið höfð hér á landi fyrr og síðar en aðrir vilja segja að þetta sé kapítalisminn í sinni verstu mynd ef það mætti orða það þannig. Allt eru þetta þá öfgar sem lýsa því kannski hver niðurstaðan getur orðið að hér er einfaldlega verið að bjóða upp á stjórnleysi miðað við þá reynslu sem menn hafa af þessum kerfum óheftum að þau munu ekki nýtast almenningi eins og hv. flm. er örugglega að reyna.

Það er kannski hluti af þessu dæmi öllu hvað ríkt er í fólki að vera á móti núverandi stjórn á fiskveiðimálum þjóðarinnar og reyna að finna leiðir til þess endalaust sem eigi að bæta úr og gera þetta betra og ég er svo sem ekkert á móti því. En sú tillaga sem hér er fram borin er í mínum huga afskaplega vanhugsuð ef ég mætti orða það svo, herra forseti, en ég vil samt reyna að gera mitt besta til þess að komast ofan í hvað er verið að meina hérna.

Hv. þm. segist ætla að úthluta þessu jafnt á alla þjóðina. Eftir því sem mér skilst er um að ræða tvö þorskígildistonn á hvern einasta íbúa landsins. Burt séð frá því hver talan er, þá er verið að gera ráð fyrir því að allir fái jafna aflaheimild úr öllum fiskstofnum landsins. Það er sem sagt þorskur, ufsi, karfi, ýsa, grálúða, keila, lúða, rækja, síld, loðna, hörpudiskur og allt þetta á að úthlutast í réttum hlutföllum á hvern einasta einstakling í landinu. Menn eiga ekki að fá hreinan þorsk, hreinan ufsa eða hreina ýsu. Menn eiga að fá þetta allt saman úthlutað til hvers og eins einasta manns í landinu. Það gefur auga leið að þetta verða afskaplega fá kíló á hvern einstakling, sumt af þessu, því að þetta eru litlar tegundir sem verið er að úthluta til tiltölulega fárra sérleyfa eins og hörpudiskveiðarnar t.d. eru. Margar fisktegundir eru afskaplega veikar og þola litla veiði þannig að það er lítil úthlutun og jafnvel svo að það tekur því varla að veiða þær en þarna er samt verið að gera ráð fyrir því að þessu sé úthlutað með þessum hætti á hvern einasta mann.

Ég átta mig ekki almennilega á því hvernig á að selja þetta svo til baka, hvernig á að koma þessu aftur í veiði. Eflaust er hægt að setja upp eitthvert kerfi sem tekur við þessu og passar upp á að öll þau kíló sem menn setja inn verði veidd en þetta verður samt sem áður mjög flókið því að menn hafa sérhæft sig mikið í veiðum í dag. Ákveðinn flokkur skipa er nánast eingöngu á loðnu- og síldveiðum, aðrir eru á botnfiskveiðum, enn aðrir eru á rækjuveiðum innfjarðar og annað slíkt. Þetta er því fyrirbæri sem hefur þróast á mjög löngum tíma og ég get ekki séð annað en að með þessari hugmynd sé verið að koma þessu nákvæmlega öllu í uppnám því það er engin trygging fyrir því að þeir fái þau kíló sem úthlutað verður á þessa 274 þúsund íbúa landsins. Ég sé ekkert sem tryggir það að Hólmarar fái hörpudiskinn sem er úthlutað 70% til Reykjavíkur. Ekki er einu sinni trygging fyrir því að þeir sem fá þennan hörpudisk úthlutaðan átti sig á því að þeir eigi að selja hann. Hann gæti þess vegna verið óveiddur. Ég held að vitund fólks fyrir svona fyrirkomulagi sé engin.

Síðan segir á bls. 15 í tillögunni að með því að kaupa aflaheimildir beint séu sjómenn alveg jafnsettir þó svo arðurinn af fjármagninu í kvótanum yrði tekinn með veiðunum. Með öðrum orðum, það skipti í rauninni ekki neinu máli fyrir sjómanninn hvor leiðin verði farin. Það getur vel verið að sjómennirnir gætu fengið sambærilegan hlut út úr veiðinni hvort sem þessi leið yrði farin eða einhver önnur.

Ég velti því samt sem áður fyrir mér að ef arðurinn af veiðinni á allur að fara í það að kaupa veiðiheimildina eins og við vitum að uppboðskerfið mun þýða munu hundruð milljóna fara frá ákveðnum svæðum inn í ríkiskassann við uppboð. Við sjáum að t.d. á Vestfjörðum munu fara 400 millj. í uppboði ef kílóið kostar 10 kr. af þeim fiski sem á að bjóða upp gagnvart Vestfirðingum eða á þeim kvóta sem þar er sem er 41 þúsund tonn þannig að 10 kr. eru 410 millj. sem mundu fara beinlínis út af svæðinu. Þarna er því verið að tala um að arðurinn af sjávarútveginum í dag fari til þeirra sem eiga kvótann, þ.e. þeirra sem fá hann úthlutaðan og þar með eigi sjómenn að vera jafnsettir. Ég velti því fyrir mér hvort nokkur vilji fara á sjó undir svona kringumstæðum. Það er engan arð að hafa, ekki er hægt að taka þá áhættu að leggja út í mikla fjárfestingu ef ljóst er að arðurinn af öllu dæminu fer til þess að kaupa kvótann hverju sinni til að hægt sé að stunda sjó.

Mér finnst í rauninni dálítið slæmt að það skuli koma fram svona tillögur sem ég hef heyrt að sumu fólki finnst spennandi, mönnum finnst þetta nýtt innlegg en mér finnst þetta dálítið hættulegt innlegg. Það sé ekki til þess að koma okkur á rétt spor ef það mætti orða það þannig. Það er reyndar ýmislegt sem mætti laga í kvótakerfinu. Við erum allir sammála því en mér finnst þetta ekki vera það vel rökstutt að við getum sagt að við séum að fara í þá átt að gera þessa þjóðareign, við skulum hafa það þannig, enn verðmætari í höndum okkar.