Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:30:59 (3949)

2000-02-03 12:30:59# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson kom inn á ýmis atriði. Hann talaði um að sumir litu á þetta sem sósíalseringu, aðrir litu á þetta sem argasta kapítalisma. Ég er mjög ánægður með að skoðanir skuli vera svona skiptar. Þetta er kannski eitthvað þar á milli.

Ég tel að þetta sé fyrst og fremst markaðsvæðing og einstaklingsvæðing, ekki kapítalismi, ekki sósíalsering. Þetta er alls ekki sósíalsering vegna þess að sósíalsering felst í því að eignir eru fluttar til ríkisins en ekki til einstaklinga, þetta er því verulega frábrugðið sósíalseringu.

Hann talaði líka um stjórnleysi. Það má vel vera að allur markaður sé stjórnleysi. Það getur verið að það sé stjórnleysi að menn geti keypt epli á hvaða verði sem er hvaðan sem er. Það lítur hugsanlega út sem stjórnleysi í hugum þeirra sem þekkja ekki markaðinn. En markaðurinn lýtur ákveðnum lögmálum og hann er alls ekki stjórnlaus.

Síðan sagði hv. þm. að þetta væri vanhugsað. Þetta er örugglega ekki vanhugsað. Það er búið að hugsa mikið um þetta en það getur verið að þetta sé illa hugsað og kannski er ég ekki nógu greindur til að gera þetta en þetta er ekki vanhugsað, ég mótmæli því.

Hv. þm. talaði um margar tegundir og að menn gætu ekki ráðið við það. Því er lýst nákvæmlega á síðu 12 hvað gerist. Útgerðir geta keypt hlutdeild í kvóta og síðan skipt á aflaheimildum í einstökum tegundum eða kvótasjóðir munu kaupa kvótann, árlega veiðiheimild, og síðan selja úr honum hörpudisk eða rækju o.s.frv. Það mun myndast markaður með hörpudiskinn og þeir sem geta veitt hann ódýrast, þ.e. Snæfellingar, munu geta boðið best og þeir munu fá eins mikinn kvóta og kerfið leyfir og þeir geta veitt. Þeir sem veiða ódýrast munu því fá mesta kvótann. Ég held nefnilega að Vestfirðingar og Vestmannaeyingar og fleiri sem hafa farið halloka í núverandi kerfi muni hagnast mest á þessu. Arðurinn fer ekki til ríkisins eins og hv. þm. sagði heldur til einstaklinga.