Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 12:48:42 (3954)

2000-02-03 12:48:42# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Sú þáltill. sem við ræðum er um breytta aðferð við úthlutun aflakvótans þar sem byggt er á því að þjóðin öll fái til sín ákveðna hlutdeild af heildarkvóta sem ákveðið er að leyfa að veiða á Íslandsmiðum á hverju ári. Þar til viðbótar eru engar hömlur settar við framsali milli manna í þessari tillögu. Ég óttast að væri hún upp tekin óstýrð og algerlega óstýrt uppboð eða útboð eða sala á aflaheimildum þá mundi ástandið ekki lagast sérlega mikið.

Ég virði hins vegar algerlega þær skoðanir sem settar eru fram í þessu plaggi og tel mjög eðlilegt að málið fái athugun. Það mundi vafalaust leiða ýmislegt í ljós sem ég held að okkur sé hollt að dregið sé fram og skoðað gaumgæfilega.

Út af fyrir sig get ég deilt skoðunum með hv. þm. Pétri Blöndal um að væri aflaheimildum hleypt óstýrt út í þjóðfélagið mundu smæstu bátarnir, þ.e. einyrkinn í útgerð, geta náð til sín aflaheimildum. Ég óttast hins vegar að hinir stóru muni bindast einhvers konar samtökum um að nálgast aflaheimildirnar eftir þessari aðferð með öllum tiltækum ráðum í skjóli þess forgangs sem er búið að gefa þeim núna í 17 ár í kvótakerfinu. Búið er að færa mönnum óhemjufé með aðferðinni sem við höfum notað til að útdeila aflakvótanum, ekki með því að ákveða heildaraflann heldur með því að útdeila aflakvótanum og fá mönnum þar óskoraðan sölu- og braskrétt. Ég er andvígur því að slíku kerfi verði viðhaldið hér, að þessi sölu- og braskréttur manna haldi áfram. Ég held að aldrei verði friður um svoleiðis útfærslu.

Hitt má vera alveg ljóst að ef menn væru að keppa um aflaheimildir, þá býst ég við því að hraðskreiðir fiskibátar, sem eru ekki tiltölulega dýrir, þar sem eru kannski bara tveir menn á bát og tveir menn í landi að beita á línu, mundu ná upp meiri afköstum en frystitogarararnir. Spurningin er hins vegar: Er æskilegt að allur okkar floti færist yfir í svoleiðis báta? Það er ég ekki viss um og dreg það reyndar mjög í efa jafnvel þó menn geti fært fyrir því rök að þar sé um vistvænar veiðar að ræða. En ég held að það sé sama hvort við tölum um þá aðferð sem hv. þm. Pétur Blöndal leggur til eða einhverjar aðrar aðferðir við stýringu fiskveiðanna og útdeilingu aflaheimildanna, fyrsta skilyrðið sem við verðum að gefa okkur er að hugsa fyrir því að skipta flotanum upp í einhvers konar aðgreinda útgerðarflokka til að stýra byggð og atvinnumöguleikum einstakra útgerða svo þær haldi velli í þessu landi. Annað verður of tilviljunarkennt. Við höfum í raun búið við þessar tilviljanir í núverandi kvótakerfi sem hafa þó verið í þá áttina að frystitogaraútgerðin hefur safnað til sín aflaheimildum. Þannig hefur það gengið hingað til.

Úreldingarreglur og ýmsar aðrar reglur urðu þess valdandi að hinum hagkvæma vertíðarflota var eytt. Ég hygg að hinn almenni vertíðarbátur af stærðinni kannski 10 upp í 150 rúmlestir sem gerður er út frá ströndinni með tiltölulega litlum útgerðarkostnaði sé ein hagkvæmasta veiðiaðferð hér við land með hliðsjón af nýtingu á a.m.k. mörgum fiskstofnum. Þar fyrir utan er mjög mismunandi hvaða fiskstofna við erum að nýta og hvaða hluti flotans nýtir hvaða fiskstofn. Ég held því að þetta atriði þurfi menn að gaumgæfa mjög. Skoðun mín er sú að við hvers konar endurskoðun, sem ég tel mjög æskilega á stjórn fiskveiða, þurfum við að líta til mismunandi útgerðarflota. Við þurfum að hafa mismunandi útgerð í landinu til að nýta hina einstöku fiskstofna. Þess vegna þarf að búa til einhvers konar stýringu í útgerðarmynstrið. Það held ég að sé forsenda þess að fólk skilji hvað við ætlum að fást við.

Ég heyrði orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar úr þessum ræðustól áðan þar sem hann lýsti áhyggjum sínum af því að ekkert væri að frétta af störfum svokallaðrar sáttanefndar, menn væru ekkert að vinna í málunum. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson lýsti því hins vegar fyrr að menn væru að vinna störf sín. Það er hins vegar ekki verið að vinna þau í sjútvn. þingsins. Ég hefði talið fulla þörf á því fyrir sjútvn. þingsins að fá að vita m.a. hvað svokölluð sáttanefnd hefur verið að aðhafast. Við óskuðum reyndar eftir því strax í kjölfar Vatneyrardómsins, stjórnarandstaðan í sjútvn., en því var ekki sinnt. Betur færi að tekið yrði til við að fá yfirlit yfir það hvað er þá verið að aðhafast. Það hlýtur að vera á ábyrgð þingsins.