Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:31:58 (3958)

2000-02-03 13:31:58# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:31]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umfjöllunar, till. til þál. um að skipta árlegum afnotarétti nytjastofna á Íslandsmiðum milli íbúa landsins, er athyglisverð og ég vil eins og margir aðrir hv. þingmenn hafa gert þakka hv. 10. þm. Reykv., Pétri Blöndal, fyrir að leggja mikla vinnu í nýjar hugmyndir um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það þýðir ekki að ég sé sammála hugmyndum hv. þm. Péturs Blöndals um þessa leið en ég tel að allar hugmyndir útfærðar inn í þá umræðu sem nú fer fram um nýtt fyrirkomulag á fiskveiðistjórnarkerfinu séu góðra gjalda verðar. Eins og fram hefur komið í máli margra þingmanna, hefur hér verið lögð vinna í útfærslu sem er vert að lofa og ég tek því undir málflutning þeirra manna.

Markaðsvæðing eða útboð af þeim toga sem hv. þm. Pétur Blöndal leggur til er ekki að mínu skapi. Það er ekki sú leið sem fara ber. Ég vil bara nefna sem dæmi að úti í samfélaginu hafa gríðarleg vandamál verið að skapast vegna stjórnar fiskveiðikerfisins. Miðað við markaðsvæðingu af því tagi sem hv. þm. talar um þá gætum við t.d. markaðsvætt andrúmsloftið. Ef við hefðum kost á því og ef það gengi kaupum og sölum hefði það í sjálfu sér svipuð áhrif og framsal kvóta og það kerfi sem kippir raunar tilverurétti undan mörgum byggðarlögum. Þetta eru hlutir sem ég fyrir mína parta get ekki skrifað undir. Við eigum að stjórna eins og við teljum best. Við búum við markaðssamfélag en landið og þjóðin eru ekki markaðstorg og hv. Alþingi á ekki að einbeita sér að málum eins og gert er í allt of ríkum mæli hér, þ.e. að tala um markaðinn og peningahyggjuna. Við erum að stjórna samfélagi. Við erum að búa til ramma um það hvernig samfélaginu er best stjórnað og það er mergurinn málsins.

Þetta er innlegg í umræðu um nýtt fyrirkomulag fyrir stjórn fiskveiða og ég tel að allt of fáir hafi þorað eða viljað koma fram með tillögur til þessarar umræðu. Nefndin um breytingar á fyrirkomulagi um stjórn fiskveiða sem nú er að störfum þarf á slíkri vinnu að halda og hún þarf á svona vinnu frá fleiri aðilum að halda, ekki bara frá hv. 10. þm. Reykv., Pétri Blöndal, sem þekktur er fyrir sínar skoðanir um stjórnunarhæfileika markaðarins, heldur frá mörgum fleiri þannig að hægt verði að setjast niður og vinna þá vinnu sem vinna þarf.

Hrikalegar afleiðingar fiskveiðistjórnarkerfisins blasa við. Við vitum að fjölmörg byggðarlög úti um allt land eru í stökustu vandræðum. Þar hefur svo að segja við malbikað yfir afkomumöguleika fólksins, malbikað yfir kartöflugarða fólksins eins og ég hef orðað það stundum. Það er kerfi sem er ranglátt og það verður að finna leiðir til þess að breyta og færa til betri vegar. Innlegg þetta er innlegg í þá umræðu og eins og ég segi, það er vel.

Fiskveiðistjórnarkerfið verður að byggja á því að við finnum leið til þess að allir sem landið byggja, hvar sem þeir búa, hafi jafna möguleika á því að nýta auðlindir náttúrunnar. Auðlindir náttúrunnar eru forsenda þess sem menn hafa byggt og búið sér í haginn úti um allar jarðir. En kerfið sem við höfum byggt á síðasta áratug hefur leitt af sér að byggð hefur á mörgum stöðum landsins gjörsamlega farið í súginn og hefur eyðilagt fyrir fjölda fólks, fjölskyldum og byggðarlögum. Þetta eru þær staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.

Hæstv. forsrh. lét taka við sig viðtal upp úr áramótunum og lýsti hrikalegum afleiðingum þess ef menn gætu sótt frjálst í auðlindir hafsins og lýsti yfir efnahagslegu hruni fyrir Ísland. En ég er ansi hræddur um að það sem hæstv. forsrh. fyrir hönd sinnar ríkisstjórnar var að lýsa gildi í raun og veru nú þegar um stóran hluta landsins. Sú lýsing að efnahagskerfið hrynji á í raun við um stóran hluta landsins, mjög mörg byggðarlög, þó með undantekningum. En það er staðreynd málsins.

Einkavæðingarstefna, hagræðingarstefna, að setja auðlindir í fárra manna hendur, afraksturshugunin ein er að leiða okkur í ógöngur í þessu samfélagi. Það er morgunljóst. Og sú lýsing sem hæstv. forsrh. gaf í umræddu sjónvarpsviðtali, sem öll þjóðin kann og hefur fjallað um, er kannski ekki svo fráleit þegar við horfum 10--15 ár fram í tímann. Hvar stansar stjórnunarform auðhyggjunnar? Stansar það í Reykjavík? Stansar það bara á fimm póstum á landinu þar sem verða blómlegar útgerðir eða, eins og hæstv. forsrh. var kannski að ýja að, er Reykjavík eða höfuðborgarsvæði og kannski fjórir aðrir staðir þegar litið er á hagræðingu í útgerðarmálum, bara áfangi á leið t.d. til eignarhaldsfélags í Lúxemborg eða annars staðar í heiminum þar sem fjármagnið ræður? Gæti þá farið svo að formúlan sem gildir um hinar dreifðu byggðir sem hafa misst allt sitt nú þegar, eigi að gilda líka fyrir þá staði sem blómlegir eru nú um stundir en gætu átt sömu örlög fyrir höndum og þeir staðir sem við erum gjarnan að vitna til þegar við tölum um vanda landsbyggðarinnar og möguleika hinna dreifðu byggða til þess að afla sér viðurværis?

Þetta eru grafalvarleg mál sem verður að taka á. Þetta er ekki mál þeirra sem standa í atvinnurekstri. Þetta er mál samfélagsins um að gera ramma sem við viljum sjá fyrir heildina. Það er mergurinn málsins. Okkur á hinu háa Alþingi er allt of tamt að tala bara út frá hagsmunum þeirra sem standa í rekstrinum, uppgjörum þeirra og hvernig starfsemi þeirra stendur. En við hv. þingmenn gleymum því oft og tíðum --- ég tala af reynslu minni hér sem nýr þingmaður um þriggja mánaða skeið --- við gleymum því allt of oft að Ísland er ekki fyrirtæki. Ísland er samfélag og það á að reka samfélag á samfélagsnótum.