Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:44:23 (3961)

2000-02-03 13:44:23# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat um það sérstaklega að auðlind þjóðar gæti ekki verið í einkaeign. Þá er hún ekki lengur auðlind þjóðar. Við höfum háð landhelgisstríð til þess að ná yfirráðum yfir þessari auðlind og þessi sýn sem ég nefndi áðan, þ.e. að arðsmiðja auðlindarinnar fari til útlanda þó að staðsetningin og skrifstofan sé hér á landi, er aðalhvatinn þess að ég flutti þáltill. upphaflega og er aðalhvatinn fyrir því að ég flyt hana enn.

Það eru ekki endilega réttlætisrök hjá almenningi sem þó vega þungt sem hafa hvatt mig til þess að koma með þessa lausn vegna þess að það er svo erfitt að meta hvað er réttlátt og sýnist sitt hverjum. En sú sýn að arðsmiðjan fari úr landi og Ísland verði aðeins verstöð, er aðalástæðan fyrir því að ég flutti þessa tillögu.

Það að kapítalið eiri engu er ekki rétt. Kapítalið leitar bara hagstæðustu leiða fyrir sig og það er í sjálfu sér hvorki siðlaust né siðsamt. En þessi auðlind sem við búum við og þau auðæfi sem hafa orðið til úr engu, vegna þess að útgerðin var rekin með miklum halla áður en fiskveiðistjórnarkerfið var tekið upp, er búin til af ríkisvaldinu með þeim takmörkunum sem settar voru á aðgang að auðlindinni. Þar með urðu þessi verðmæti til. Ríkisvaldið bjó til þessi verðmæti og þess vegna finnst mér mjög eðlilegt að dreifa þessum verðmætum til þjóðarinnar.