Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 13:46:08 (3962)

2000-02-03 13:46:08# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[13:46]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir heiðarlega nálgun mála út frá sinni lífssýn. Það er meira en sagt verður um þorra þeirra þingmanna sem styðja hæstv. ríkisstjórn og segja eitt en eru í raun með grunn sem stefnir að allt öðru. Þess vegna finnst mér gott að fá innlegg af þessu tagi í púkkið til þess að vinna vinnuna, innlegg sem byggir á því sem menn hjartanlega meina. Ég hef séð fyrir mér nákvæmlega sömu hættumerki og sett eru fram í greinargerð hv. 10. þm. Reykv. Þess vegna vil ég beygja af leið og byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Það er svo himinklárt í mínum huga að það verður að leggjast í þá vinnu að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, vinda ofan af því, færa það í þá átt sem við viljum sjá um framtíðarþróun íslensks samfélags, þ.e. að byggja á auðlindinni fyrir okkur og okkar fólk þannig að við missum það ekki út úr höndunum á okkur eins og er að gerast í núverandi stjórnarstefnu á mörgum póstum í einkavæðingarstefnunni þó svo að hv. þingmenn sem styðja stefnuna segi eitt og meini kannski í hjarta sínu allt annað. Það er mergurinn málsins.