Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:21:10 (3971)

2000-02-03 14:21:10# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að við lifum í markaðssamfélagi. Það er ekki það sem málið snýst um. Málið snýst um breytingar á kerfum, málið snýst um það ef við förum ofan í fjölskyldubúskap að taka ákvörðun um að selja fjölskyldusilfrið. Það er þar sem þetta óheilbrigða ástand verður til, þegar menn fara að rífast um fjölskyldusilfrið á algerlega óeðlilegum forsendum.

Vandamálin í íslensku efnahagskerfi í dag eru út af ákvarðanatöku um sölu á fjölskyldusilfrinu og æðibunugangurinn í kringum það mál allt, hraðinn, óvönduð vinnubrögð, markaðshugsunin hér í þinginu allsráðandi, viðskiptaleg hugsun en ekki hugsunin um það hvernig á að búa til ramma sem gagnast öllum þannig að allir eigi jafnan rétt. Hér hefur verið opnaður veðhlaupabás á nokkurra mánaða fresti um nokkurra ára skeið, veðhlaupabás þannig að markaðsvæðingin verður tryllt, ekki gróðahyggja því að fyrirtækin verða að græða, hér erum við komin yfir mörkin í að græða og yfir í græðgi. Það er mergurinn málsins. Og það er það fyrst og fremst sem þjóðin er ósátt við.

Ég er að mæla þessi orð vegna þess að hér verður að vanda til verka. Ísland er samfélag, Ísland er ekki fyrirtæki og við þurfum að einbeita okkur að því á hinu háa Alþingi að hugsa um Ísland sem samfélag og hugsa minna um það sem fyrirtæki eins og brennur við í ræðu allflestra, a.m.k. stjórnarliða, og það er það sem ég er ósáttur við og vara við.