Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:23:21 (3972)

2000-02-03 14:23:21# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Við Íslendingar erum núna að hverfa frá mjög miðstýrðu sovétkerfi og það er viðbúið að upp komi ýmiss konar barnasjúkdómar við þá breytingu, ýmislegt sem þurfi að skoða og breyta, t.d. viðhorfum, lögum og reglum. Og nýjasta dæmið er þetta upphlaup varðandi innherjaviðskipti þar sem reglurnar eru ekki nægilega útfærðar og viðbúið er að menn lendi í slíkum vandræðum þegar verið er að gera svona mikla breytingu frá miðstýringu yfir í markað.

En það er ekki þar með sagt að markaðurinn sé slæmur þó að upp komi einhverjir barnasjúkdómar eða að markaðsvæðingin sé tryllt. Hún er það alls ekki. Ég hugsa að almenningur sé miklu meira meðvitaður núna um atvinnulífið, um gildi atvinnulífsins fyrir þjóðina en áður. Nú þykir engin skömm að því að fyrirtæki séu vel rekin og bjóði ódýra þjónustu og skili hagnaði samt. Menn eru búnir að átta sig á því að hagnaður fyrirtækja verður oft til úr engu. Fyrirtæki getur skilað miklu tapi með nákvæmlega sama mannskap og aðföngum og það getur líka skilað hagnaði bara með því að skipuleggja reksturinn betur og hafa betri stjórnun. Á þessu eru menn farnir að átta sig og ég held að sú sýn sem hv. þm. hefur á hinum íslenska borgara sé röng, hinn almenni borgari er ekki svona vitlaus. Hann hefur miklu meiri athyglisgáfu og hann er að læra á kerfið og mér finnst að almenningur á Íslandi hafi núna miklu meiri skilning á atvinnulífinu en hann hafði fyrir um fimm eða tíu árum.