Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:25:20 (3973)

2000-02-03 14:25:20# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:25]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. er nú endurflutt. Ég og hv. þm., flutningsmaður hennar, höfum rætt þessi mál nokkuð oft áður. Það er því kannski ekki neitt nýtt í þeim en þó held ég að rétt sé að fara yfir þessa hluti nokkrum orðum.

Það er athyglisvert við þennan tillöguflutning hv. þm. að hann er samstofna mjög mörgum vitringakórum sem heyrast núna þessa daga í þjóðfélaginu um það hvernig stýra eigi fiskveiðimálum og allir þessir kórar eru sammála um eitt og ganga út frá einum grundvallarhlut. Þeir eru að tala um hvernig úthluta eigi aflakvótum, allir. Í þáltill. sem hér liggur fyrir kemur það líka mjög skýrt fram strax í I. kaflanum hjá flutningsmanni því að hann segir þar: ,,Ekki verði hróflað við aflamarkskerfinu.`` Þetta er meginmálið, herra forseti. Þessar tillögur hv. þm. ganga út frá því að hrófla ekki við aflamarkskerfinu eins og mjög margar aðrar sem láta á sér kræla í þjóðfélaginu.

Við getum náttúrlega deilt um það endalaust, þetta er svona eilífðardeila, hvernig eigi að úthluta aflamarkskerfi og við höfum gert það áður og ég ætla ekki að eyða þeim fáu mínútum sem fást til að ræða það hér.

Ég ætla hins vegar, herra forseti, að rifja það upp að deilurnar um fiskveiðistjórnarkerfið eins og það birtist okkur sem vorum þá útgerðarmenn 1983 og 1984, deilurnar milli útgerðarmanna og milli fólks þá í upphafi voru ekki svona. Deilurnar voru um það hvort það stýra ætti með aflamarkskerfi eða á einhvern annan hátt. Um það snerust deilurnar. Við sem vorum á móti aflamarkskerfi héldum því þá fram að aflamarkskerfi væri vond aðferð til að stýra fiskveiðimálum. Við vorum sannfærðir um það þá og öll þau ár sem liðin eru síðan hafa sannfært mig enn frekar um að aflamarkskerfið er nánast vonlaus aðferð til að stýra fiskveiðum til að ná því markmiði að þurfa að hámarka þessa auðlind þjóðinni til blessunar. Það er allt sem mælir gegn því, öll reynsla okkar mælir gegn því. Þetta kerfi er stórhættulegt fyrst og fremst gagnvart líffræðinni í hafinu. Þegar við erum að veiða botnlægu tegundirnar, þá liggur það fyrir að við erum að veiða ofan af stofninum því að auðvitað sækja allir í verðmætasta fiskinn. Við erum að veiða þorsk á Íslandsmiðum sem er af stærðargráðunni frá 1,5 kg til 15 kg og verðmunurinn er gríðarlegur. Þegar menn fá úthlutað í kílóum, þ.e. þyngdareiningum, hverju sækjast þeir eftir? Því verðmætasta. Þetta eru nú einu sinni mannheimar og þeim verður seint breytt. Við erum að gera mjög rangt gagnvart hafinu. Þetta kerfi býður upp á það. Og allir vita að sérhver maður sem er neyddur til að vinna í slíku kerfi reynir að lifa af. Það þýðir ekkert fyrir fólk að neita þeirri staðreynd að sóunin á Íslandsmiðum og brottkastið er svo skelfilegt að við megum ekki lifa við það. Við megum ekki láta það viðgangast.

Við horfum líka upp á það að í þessu kerfi erum við að reyna að vera með fullvinnsluskip þar sem bakreikna á kvótann. Allir vita það, hver einasti maður að með þeirri aðferð erum við að skekkja samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar svo hroðalega að við erum að eyða tilverurétti sjávarbyggðanna kringum ströndina. Það að mismuna í samkeppnisstöðu er mjög alvarlegur hlutur í því markaðssamfélagi sem við viljum lifa í og við lifum í. Það er nákvæmlega það sama að mismuna í samkeppni eins og að skekkja kompás. Ef einhver skekkir einn kompás, þá siglir viðkomandi bara vitlaust. Þetta látum við viðgangast þó að allir viti að þetta sé svona.

Svo ég tali nú ekki um hið alvarlegasta í þessu öllu saman, það er hvernig skýrslurnar í aflamarkskerfi afvegaleiða hina ágætu vísindamenn sem eru hér og við viljum hafa og viljum treysta og vonum að hafi þau gögn að þeir geti unnið eins vel og þekking þeirra nær. Það er verið að afvegaleiða hafrannsóknir stórkostlega með skýrslugjöf á undanförnum árum, enda eru þeir mjög langt frá því að hafa sömu meiningar um stöðu helstu nytjastofna og þeir sem stunda sjóinn, eins og sjómenn á Íslandsmiðum. Hafrannsóknastofnun heldur að við séum að byggja upp þorskveiðar og hér sé þorskveiðistofn í vexti þegar allir sjómenn vita betur. Hafrannsóknastofnun sem hefur heilmarga eftirlitsmenn virðist alls ekki vita það að firðir og flóar eru yfirfullir af grindhoruðum þorski, og á sama tíma erum við að banna mönnum að bjarga sér.

Ég er, herra forseti, t.d. sannfærður um að röng fiskveiðiráðgjöf er búin að skaða þjóðfélagið á þessum áratug langt á annað hundrað millj. í útflutningstekjum. (Gripið fram í: Milljarða.) Milljarða í útflutningstekjum. Þetta er höfuðvandamálið. Það er þetta sem við stöndum frammi fyrir en umræðan fæst ekki um þetta. Réttilega segir flutningsmaður hér: ,,Niðurstaða: Kvótaumræðan snýst fyrst og fremst um eignarhald á fiskveiðiheimildum.`` Þetta er rétt hjá flutningsmanni. Umræðan snýst um þetta. Menn geta svo sem eytt tíma í það. Ég ætla ekki að gera það núna. En það sem umræðan þyrfti að snúast um er fiskveiðistjórnin sjálf og það er þeim mun alvarlegra þar sem fullt af fólki virðist vera vel meðvitað um það að þessi náttúra landsins er fengin að láni og að við eigum að skila henni. Fólk kemur fram, bæði hér á þingi og í fjölmiðlum og vitnar um það hversu mjög það tekur nærri sér ýmsar mosaþembur hingað og þangað um hálendið en engin umræða eða a.m.k. sáralítil er um það hvernig við förum með þá náttúru sem er fyrir neðan sjávarmálið og er þó þúsund sinnum verðmætari en allar mosaþembur hálendisins. Því miður snýst umræðan um þetta en ekki um það sem hún ætti að snúast.