Afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 14:39:31 (3978)

2000-02-03 14:39:31# 125. lþ. 56.1 fundur 172. mál: #A afnotaréttur nytjastofna á Íslandsmiðum# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór mikinn í umfjöllun sinni um auðlindir sjávar. Hann fór þar bæði frá hinum dýpstu miðum og inn til heiða í tali sínu um náttúruauðlindirnar.

Ég vil leggja áherslu á að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á vistvænar veiðar, það er ein af grundvallartillögum okkar. Við höfum þungar áhyggjur af meðferð fiskimiðanna. Við höfum þungar áhyggjur af því hvernig farið er með karfamiðin þar sem kórallinn er skrapaður upp til að ná þeim karfatittum sem þar eru eftir. Við höfum af þessu verulega þungar áhyggjur.

Við höfum líka þungar áhyggjur af slæmri umgengni á heiðalöndum eða hvar sem er, hvort sem það er inn til dala eða út til strandar. Það ber að umgangast náttúruauðlindirnar, sem við höfum aðeins af láni og afnotarétt af en ekki eignarhald á, með næstu kynslóðir í huga.

Ég vil minna á, herra forseti, að einmitt í skjóli framkvæmdar laga um stjórn fiskveiða fer þessi ósvinna fram. Hún fer fram, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson minntist á, með miklu brottkasti af afla á skipum. Það er fjarri því að komið sé að landi með allt slóg. Stór hluti þess sem veiddur er kemur aldrei til lands til nýtingar.

Herra forseti. Það er afar brýnt að taka upp framkvæmd þessara laga um stjórn fiskveiða þannig að bæði nýting auðlindanna verði með þeim hætti að sómasamlegt sé og til heiðurs fyrir okkur gagnvart næstu kynslóðum og fyrir íbúa alls landsins, íbúana sem eiga rétt til þessara auðlinda meðfram ströndum landsins.