Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 15:13:08 (3980)

2000-02-03 15:13:08# 125. lþ. 56.2 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér er að mínu mati hreyft mjög athyglisverðu máli sem ég lýsi yfir að ég tel að eigi að fá mjög jákvæðar viðtökur. Menn ættu að fara mjög vel í þetta í meðförum hv. sjútvn. þegar það kemur til hennar. Ég held að málið sé þess eðlis að menn ættu að skoða það mjög jákvætt hvort hægt sé að afgreiða það einhvern veginn.

Það flögraði að mér þegar ég hlýddi á hv. 4. þm. Vestf. fara yfir þetta mál að fyrir 2000 árum var það kallað kraftaverk þegar fáeinir fiskar dugðu til þess að metta fimm þúsund manns. Ég veit ekki hvað menn mundu kalla það á þessum tíma þegar karfi breytist skyndilega í ufsa og grálúða í þorsk eða þorskur í grálúðu, a.m.k. held ég að hugtakið kraftaverk hefði nú einhvern tíma komið upp í huga manna.

Í huga mínum er dálítið farið að snjóa yfir aðdraganda þessa máls, þ.e. hvernig það bar að á sínum tíma þegar menn voru að móta kvótakerfið upp úr miðjum níunda áratugnum. Mér er það ekki í fersku minni en þó held ég að ég muni það rétt að á þeim tíma hafi átt að reyna að setja inn í löggjöfina nokkuð sem menn kölluðu sveigjanleika, sem gerði það að verkum að hægt væri að vinna með kerfi sem úthlutaði bátum heimildum til veiða upp á tonn og kíló, kannski með einum og tveimur aukastöfum. Auðvitað sáu það allir að kerfi af því tagi gat aldrei gengið upp nema menn byggðu í það einhverja sveigju. Á þeim tíma, ef ég man þetta rétt, reyndu menn að búa til eitthvað sem gerði það að verkum að hægt væri að vinna í þessu kerfi, gerði það að verkum að sjómenn og útvegsmenn gætu fengið skammtað á hvern bát tilteknu veiðimagni í hverri tegund. Þá varð til þetta fyrirbrigði sem við höfum kallað tegundatilfærslu og hv. 4. þm. Vestf. hefur lýst mjög vel. Ég ætla alls ekki að endurtaka það hér enda verður ekki miklu við það bætt.

[15:15]

Í öðru lagi var sett inn ákvæði um að menn gætu veitt umfram sinn eiginn kvóta á einu ári og sem dregið var af kvóta næsta árs. Út af fyrir sig hefur mér alltaf fundist það skynsamlegt. Þær aðstæður geta einfaldlega skapast meðan við búum við þetta kvótakerfi eins og hv. þm. nefndi áðan. Þegar þannig árar blossar stundum upp veiði á tegund sem ekki hafði verið gert ráð fyrir, jafnvel í lok fiskveiðiárs eða lok almanaksárs eins og þá gilti. Þá voru menn við það að ná kvóta sínum og auðvitað þurfti að hafa einhverja sveigju þarna til eða frá. Þess vegna hefur mér alltaf fundist ósköp eðlilegt að menn hefðu einhverja möguleika á að rétta af kúrsinn hjá sér í þeirri stöðu.

Sama gildir um hugmyndina um að geyma hluta af aflaheimildum sínum. Það var á vissan hátt stutt með fiskifræðilegum rökum, þeirri hugsun að hægt væri að geyma kvóta og síðan ávaxtaði hann sig. Að vísu hef ég miklar efasemdir um það. Ég held reyndar að reynslan hafi sýnt, svo maður taki ekki mjög djúpt í árinni, að setja megi stórt spurningarmerki við þá hugsun að hægt sé að geyma kvóta og hann ávaxti sig um einhver prósent á ári líkt og peningar á bók og síðan geti menn tekið út aðeins meira eftir einhvern tíma. Sú hugsun út af fyrir sig er skökk en að mínu mati eru einu rökin fyrir þeirri sveigju, að geyma hluta af aflaheimildum sínum, byggð á því að reyna að gera það liðlegra að vinna með þessu kerfi sem annars skammtar mönnum reglurnar. Sama má segja um framsalið sem var í upphafi hugsað út frá því að útbúa einhverja sveigju og auðvelda mönnum að vinna með í kerfinu.

Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þm. þegar hann benti á varðandi tegundatilfræslurnar að þetta er kerfi sem greinilega hefur gengið sér til húðar. Á því eru einfaldlega svo miklir annmarkar að allir sjái að við verðum að skoða breytingar á því máli. Greinilegt er að sumar tegundir hafa þarna skipt meira máli. Ef við tökum t.d. ufsann þá hafa tilfærslur á honum verið um eitthvað 12--15 þús. tonn, eins og fram kom í máli hv. þm. Með karfann er þessu hins vegar alveg öfugt farið upp á 11--13 þús. tonn. Af grálúðu hafa veiðst, eins og kemur hér fram í töflunum um 2--5 þús. tonn vegna tegundatifærslu á henni. Ef ég man rétt þá held ég að á árunum fyrir tímabililið sem hv. þm. er með upplýsingar um í töflum sínum hafi tegundatilfærslurnar frá þorski, ef ég man það rétt, yfir í grálúðu verið enn þá meiri en er á þessum árum. Ég a.m.k. man þá tíð að menn gerðu þetta á sínum tíma, spiluðu bókstaflega á kerfið og það var bara eðlilegt. Lögin bjuggu mönnum þennan ramma og þeir spiluðu á að nýta þorskinn til að auka grálúðuheimildirnar sínar. Ég veit að hv. þm. man þetta örugglega ekki síður en ég.

Við sjáum einnig að eftir að steinbíturinn var kvótasettur fyrir nokkrum árum að þá hefur hann líka orðið --- hvað á að segja --- tæki til að búa til aðrar aflaheimildir fyrir menn. Að vísu er heildarkvótinn í steinbíti ekki mjög mikill. Leyfður heildarafli var á síðasta fiskveiðiári sem hérna er undir, þ.e. 1998--1999, 13 þús. tonn og tegundatilfærsla neikvæð um 3 þús. tonn í steinbíti. Við sjáum að hér er um að ræða einn fjórða eða hér um bil 20--25% af leyfilegum steinbítsafla. Við sjáum að það sem upphaflega hefur verið hugsað sem sveigja í kerfinu hefur orðið til þess að skapa mikla skekkju.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins segja að ég tel að í þessu frv. sé hreyft mjög þarfri hugmynd. Ég held að eins og með önnur mál þurfi að skoða nákvæmlega hvaða áhrif afnám tegundatilfærslunnar hefði. Því þurfum við að velta fyrir okkur betur. Ég er ekki búinn að skoða það alveg í botn. Við munum í sjútvn. kalla fyrir okkur þá aðila sem málið snertir, bæði sjómenn og útvegsmenn. Þeir hafa þá tækifæri til að segja sína skoðun á þessu. Ég hygg hins vegar að svo miklir annmarkar séu á þessu kerfi að við eigum að skoða þetta mjög jákvætt. Ég vil lýsa því yfir fyrir mína parta að þetta mál eigi að fá jákvæða framgöngu í sjútvn.