Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 15:49:07 (3984)

2000-02-03 15:49:07# 125. lþ. 56.2 fundur 229. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar umfram aflamark) frv., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka jákvæðar undirtektir og ábendingar þeirra hv. þm. sem hafa komið hér í ræðustól. Auðvitað er það rétt ábending hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um 20%, ekki er lagt til að breyta þeim í þessu frv., þ.e. því að menn megi geyma aflaheimildir á milli ára. Þeirri lagagrein er ekki breytt með þessari tillögu. Hins vegar er lagt til að 2% komi í staðinn fyrir 5% sem nú eru inni í lögunum. Það er nú kannski ekki meginmálið hvort menn eru að tala um 2, 3, 4 eða 5% í þessa veru. Meginmálið er auðvitað þessi tegundatilfærsla sem ég hef gert að umtalsefni og frv. fjallar um.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á að það skiptir byggðirnar höfuðmáli hvernig gengið er um fiskimiðin sem næst þeim liggja, þar sem fólk á þeim svæðum byggir nánast alfarið afkomu sína á. Við getum tekið Húnflóa sem dæmi. Margir staðir við Húnaflóa frá Drangsnesi í vestri til Skagastrandar í austri hafa byggt á nýtingu flóans að langmestu leyti á undanförnum áratugum með veiðum á rækju sem hefur verið það sjávardýr sem haldið hefur uppi veiðum og vinnslu í byggðunum við flóann að stórum hluta að vetrinum. Nú hagar svo til að þar er ekki leyfð nein veiði á innfjarðarrækju. Auðvitað kemur það ekki harðar niður á neinum öðrum en fólkinu sem þar býr. Það að rækjustofninn hefur látið svo mikið á sjá er að stórum hluta vegna þess að sjór hefur verið hlýr á undanförnum árum og þorskur hefur sótt inn í flóann undanfarin tvö ár í meiri mæli en verið hefur árin þar á undan, ég tala nú ekki um ef menn fara nokkur ár aftur í tímann þegar oft á tíðum var ekki ugga að hafa af botnfiski í Húnaflóa.

En þá missa byggðirnar veiðiheimildir sínar. Bátarnir við flóann sem hafa nýtt innfjarðarrækjuna eru yfirleitt ekki mjög stór skip, á bilinu um 20 og upp í 100 brúttórúmlestir, og liggja mjög vel við nýtingu flóans. En ekki virðist mega grípa til þess ráðs að leyfa þeim að auka veiði sína í flóanum og taka af þorskstofninum sem sótt hefur í flóann og étið niður lífsafkomu þeirra. Þetta er alveg dæmigert fyrir það hvernig fólk í hinum ýmsu sjávarbyggðum við landið ætti að hafa miklu meira um það að segja hvernig háttað skuli nýtingu á viðkomandi miðum og hvernig réttur fólksins skuli tryggður.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson vék hér að atriði sem ég ætla að ræða aðeins meira um og snýr að því að kvótakerfi verður harðasta sóknarkerfi sem finnanlegt er í veröldinni þegar ráðgjöfin er ekki rétt. Það getur ekkert annað gerst. Ef aflaúthlutunin er röng og of mikil af einhverjum ástæðum vegna þess að rangt hafi verið ályktað um það hversu mikið væri til af fiski á miðunum við landið, þá er ekki til harðara sóknarkerfi en kvótakerfið og ekki til harðara veiðikerfi yfirleitt en kvótakerfi með framseljanlegum kvóta. Þá fyrst verður það hart þegar menn geta framselt kvótann til þeirra sem hafa öflugustu sóknina og bestu möguleikana til að veiða og menn halda þá uppi sókn sem aldrei fyrr þrátt fyrir að aflabrögðin séu léleg. Um þetta eru dæmi hjá okkur, ekki mjög gömul, frá því að þorskstofninn var frekar á niðurleið hér við land á fiskveiðiárunum 1992--1993. Þrátt fyrir að keyrt væri allt í kringum landið af fullum krafti í veiðum á þorski þá tókst ekki að veiða þorskaflann. Þarna var haldið uppi mjög hörðu sóknarkerfi og kom í ljós að ekki tókst að veiða aflann. Það endurspeglaði það að stíft sóknarkerfi er auðvitað það sem segir mest um hvaða ályktanir megi draga af því hvaða ástand er í náttúrufarinu og á miðunum. Það sýnir hvort mikill fiskur eða lítill fiskur er ef menn hafa sóknarkerfi í gangi sem sýnir aflabrögð. Það mælir þau með breytileika á milli ára því að úthlutun kvóta getur skekkt þá mynd sem menn þurfa að hafa af því hvernig fiskigengdin er.

Þetta vildi ég draga fram og ég vona, eins og undirtektirnar hafa verið, að málið fái jákvæða afgreiðslu og þær upplýsingar sem dregnar verða fram í sjútvn., m.a. með þessu máli, sýni það sem ég hef haldið fram í þessum ræðustól, að nýting okkar á fiskstofnunum við landið hafi verið betri sl. hálfa öld og við náð mun meiri afla sl. hálfa öld en undir stýringu hins umdeilanlega, framseljanlega kvótakerfis sem nú er við lýði.

Ég legg svo til að málinu verði vísað til sjútvn.