Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 15:56:36 (3985)

2000-02-03 15:56:36# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., Flm. GAK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Það frv. sem ég mæli fyrir er einnig um stjórn fiskveiða eins og hið fyrra sem var hér til umræðu en snýr að allt öðrum þætti málsins. Það snýr að því að breyta 11. gr. laga um stjórn fiskveiða. Í frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Við 6. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er verða 2. og 3. málsl. og orðast svo: Þó er óheimilt að flytja aflamark eða framselja aflahlutdeild til frystiskipa umfram þá aflahlutdeild sem þau höfðu 1. september 1999. Heimilt er að flytja aflaheimild og aflahlutdeild milli frystiskipa sé um sambærileg skip að ræða, sbr. 1. mgr.``

Um margra ára skeið hefur sú þróun átt sér stað í kvótakerfinu að botnfiskaflakvótinn hefur safnast til frystiskipa fiskveiðiflotans og jafnframt hefur hefðbundnum fiskibátum fækkað mikið. Aflakvóti bátaflotans hefur einnig minnkað mikið sem hlutfall af úthlutuðum kvóta til fiskiskipa stærri en 6 tonn, krókabáta, þó svo að það hafi í raun verið falið með því að taka fleiri strandveiðifisktegundir, eins og sandkola, skrápflúru og steinbít, inn í kvóta og fjölga þannig þorskígildum bátaflotans.

Það er svo saga út af fyrir sig hvernig áðurnefndar viðbótartegundir í kvótakerfinu hafa verið notaðar í svokallaða tegundatilfærslu og þannig búið til sjálftökukvóta í karfa og grálúðu, sem var það mál sem við ræddum hér áðan.

Hér er lagt til að sett verði í lög ákvæði sem kemur í veg fyrir að frystiskipin geti haldið áfram að safna til sín veiðiheimildum bátaflotans, með öðrum orðum að sá floti verði þá að ,,hagræða`` aflaheimildum innbyrðis milli frystiskipa ef á að færa á þau meiri afla í almennum botnfisktegundum. Við umfjöllun um frumvarpið er rétt að skoða hvort slík takmörkun eigi ekki að ná til t.d. karfa og grálúðu sem eru tvímælalaust þær fisktegundir sem best nýtast frystiskipum til verðmætasköpunar, enda er líklegt að einmitt frystiskipin nýti 80--90% af öllum grálúðuheimildum hér við land og sennilega um 80% af öllum karfaheimildum sem veiddar eru hér við land. Þetta eru því vissulega mikilvægar fisktegundir fyrir frystiskipaútgerðina og væru ekki betur nýttar held ég með öðrum hætti.

[16:00]

Fjöldamörg rök má færa fyrir því að setja slíkt ákvæði í lög. Ekki verður á móti mælt að á bak við útgerð frystiskipa eru öll fjárhagslega sterkustu fyrirtækin í sjávarútvegi. Því liggur í augum uppi að ef þennan öfluga flota vantaði kvóta gætu svo fjársterkir aðilar keypt upp veiðirétt eins eða tveggja lítilla útgerðarstaða án þess að þurfa lántöku eða sérstaka fjármögnun til kaupanna. Í þessu liggur viss hætta sem fylgir þeirri einstæðu útfærslu sem við höfum komið okkur upp í kvótaverslunarkerfinu þar sem í því eru engar girðingar svo að koma megi í veg fyrir slys eins og þau að niðurskurður á úthafskarfakvóta verði ekki sjálfkrafa til þess að byggð leggist af t.d. á Hólmavík eða Þórshöfn, svo að dæmi séu tekin, vegna þess að þaðan fór kvótinn sem vantaði í úthaldseyðuna sem myndaðist hjá frystiskipunum. Þótt hér sé aðeins lagt til að setja slíka takmörkun á framsal til frystiskipa má vafalaust benda á rök í þá átt að almennt sé rétt að setja nokkrar girðingar í núverandi kvótakerfi og skipta þannig flotanum upp í útgerðarflokka. Það mundi örugglega auðvelda meðferð og lagfæringar á miklum göllum kvótabrasksins í kerfinu.

Í upphaflegri stefnu Fjálslynda flokksins fyrir síðustu kosningar og síðan hefur Frjálslyndi flokkurinn viljað hverfa frá núgildandi úthlutun kvóta í einni svipan með því að hverfa til þess tíma sem ríkti fyrir upphaf núgildandi fiskveiðistjórnar árið 1984, þ.e. með því að gefa allar veiðar frjálsar eins og kostur væri um tveggja eða þriggja ára skeið með sóknarstýringu og árlegu hámarksaflamagni í mikilvægustu tegundum. Að vísu hefur flokkurinn lagt til sem aðferð til að milda slíka ráðstöfun, þorskafla verulega ofan við núgildandi mörk, m.a. með tilliti til mikils brottkasts af fiski í hafi innan núgildandi kerfis sem hvergi sér stað í aflaskýrslum.

Frjálslynda flokknum hefur frá upphafi verið ljóst að afleiðingar slíkrar stefnubreytingar og svo bratt fráhvarf frá gildandi brakskkerfi kynni að koma illa við ýmsa útgerðaraðila. Í því sambandi höfum við haft mestar áhyggjur af minni útgerðum sem hafa freistað þess að kaupa sér aflaheimildir á háu verði sem eru stórt hlutfall af því sem þær hafa fengið úthlutað gefins. Flokkurinn hefur haft minni áhyggjur af hinum stóru sem hafa keypt til sín aflaheimildir á háu verði sem ræðst af því að þetta eru jaðarviðskipti, eða búið sér til stórfelldar pappírseignauppfærslur á kvótum með sameiningu fyrirtækja og öðrum slíkum ráðum. Ljóst er að hvers konar skerðing, svo ekki sé talað um afnám núgildandi kvótaúthlutunar, hefur áhrif til lækkunar á skráðri eign útgerða og þeim mun meiri sem þær hafa gengið harðar fram í kaupum á kvóta og eignauppfærslum í tengslum við sameiningar fyrirtækja. Sú breyting kann að leiða af sér lækkun markaðsverðs hlutabréfa í einstökum fyrirtækjum að því leyti sem það hefur endurspeglað hið óraunhæfa verðlag sem útgerðirnar hafa búið til í samkeppni þeirra í milli.

Breytingin ætti hins vegar ekki að hafa áhrif á rekstur og rekstrarafkomu fyrirtækja nema helst þeirra sem hafa byggt afkomu sína á leigutekjum fyrir kvóta. Skerðing á afkomu þeirra fyrirtækja og tilflutningur hennar til annarra verður að teljast sanngjörn leiðrétting á misnotkun á gildandi kerfi.

Nú væri þörf að bregðast við þeirri réttaróvissu sem hæstaréttardómur í árslok 1998 svo og nýgenginn héraðsdómur í svonefndu Vatneyrarmáli hafa skapað. Telja verður algjört ábyrgðarleysi af hálfu Alþingis og raunar brot á þeim eiðstaf og drengskaparheiti um verndun stjórnarskrárinnar sem hver þingmaður hefur undirritað að láta eins og ekkert sé þegar veigamiklar efasemdir rísa um að lög sem þingið hefur sett fái staðist mikilvæg ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði þegna lýðveldisins.

Nú er nauðsyn til sátta um hvernig mætti feta sig út úr þeim ógöngum sem núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi með óheftum heimildum til framsals og leigu veiðiheimilda hefur leitt yfir þjóðina. Við teljum að kvótabraskið verði að hverfa. Nauðsynlegt er að greina sundur meginþætti gildandi kerfis. Það er grundvallaratriði til skilnings á þeim vanda sem fást þarf við að menn hætti að tala um kvótakerfi sem sé svo stórkostlegt að því er haldið fram að það veki heimsathygli.

Þetta kerfi er samansett úr tvennu sem skoða verður hvort í sínu lagi ef menn eiga að geta rætt fyrirbærið með þeim skilningi á eðli þess sem nauðsynlegur er. Annars vegar er kvótasetning, þ.e. ákvörðun um hversu mikið eigi veiða af hverri fisktegund til að nýting stofnsins og viðgangur þyki innan öryggismarka og sé líkleg til að gefa af honum hámarksafrakstur. Þessi hluti íslenska kvótakerfisins er umdeildur þó illdeilur séu ekki eins miklar og um kvótabraskið og um önnur atriði sem má deila um í því efni.

Hins vegar er um að ræða úthlutun hins leyfða kvóta sem er allt annað mál og höfuðatriði hins pólitíska ágreinings í þessu mikla deilumáli meðal þjóðarinnar. Fyrirsvarsmenn núgildandi úthlutunar, þ.e. gjafaveiðiréttarins til þeirra sem skip áttu á tilteknu tímabili endur fyrir löngu og afkomenda þeirra, telja þetta hina einu leið til hagfelldrar útgerðar á Íslandsmiðum. Er þá með öllu litið fram hjá ágöllum úthlutunarinnar svo sem hróplegu samkeppnisforskoti stóru útgerðanna gagnvart hinum smærri, lokun kerfisins á nýliðun í útgerð, óörygginu sem aðferðin býr sjávarbyggðunum, flæði fjármagns út úr greininni þegar útgerðarmenn eða erfingjar þeirra selja hlut sinn í sameign þjóðarinnar, skefjalausu brottkasti fisks sem kerfið leiðir af sér og síðast en ekki síst þeirri taumlausu skuldsetningu sem útgerðin tekur á sig þegar sægreifarnir eru keyptir út úr greininni. Eru þá ótalin stjórnarskrárákvæðin sem fyrr var vitnað til.

Gríðarlegum fjármunum hefur verið varið til áróðurs í hinni pólitísku varðstöðu um kerfið undir stjórn öflugustu auglýsingamanna landsins. Sérhagsmunirnir sem verið er að verja eru líka gríðarlegir. Þjóðin hefur þó ekki látið blekkjast en of stór hluti hennar hefur látið stjórnarflokkana komast upp með þeirra grímulausu varðstöðu um þá sérhagsmuni sem Alþingi hefur búið til með óskynsamlegri löggjöf sem ekki fær staðist neinar réttlætiskröfur og eykur stórlega á vanda sjávarbyggðanna.

Þeir sem best þekkja til erlendis vilja ekki svona kerfi. Íbúum Nýfundnalands, Færeyingum eða Norðmönnum sem allir þekkja til þess hvernig Íslendingar fóru að í þessu efni, kemur ekki til hugar að innleiða sömu aðferð. Þeir sjá hvernig hún drepur niður smærri rekstur og eyðir byggðum. Verið getur að einhverjar þjóðir sem eru nógu langt í burtu og hafa fengið til sín trúboða íslenska sjútvrn. láti sér koma til hugar að apa þetta eftir enda eiga í hlut þjóðir sem hafa langa hefð fyrir að hygla vel metnum einstaklingum. Það kunna Íslendingar hins vegar ekki að meta.

Misræmið milli núgildandi kvótaúthlutunar og reglna stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði er grunnvandinn sem við er að fást. Hann snýst þess vegna ekki um kvótakerfið í heild sinni heldur einungis um úthlutun kvótans að því leyti sem til kvótasetningar þarf að koma. Spurninging er: Hvenær þarf kvótasetningu?

Það er að sjálfsögðu grundvallaratriði hvenær og hvort nauðsynlegt er að setja fisktegund undir afltakmarkanir. Þegar sagan er skoðuð kemur í ljós að það er regla fremur en undantekning að útgerðin nær ekki að veiða að fullu þann afla sem sjútvrn. hefur leyft, sem oftast er í námunda við þá ramma sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til. Hin eðlilegu viðbrögð í þessari stöðu ættu að vera að taka þá tegund sem ekki tekst að veiða út úr kvótasetningu þar til ætla mætti að henni sé ofboðið. Svo mikil hefur verið þjónkun sjútvrh. við hagsmuni einstakra útgerðarmanna að þetta hefur ekki verið gert. Þess í stað hefur verið leidd í lög röklaus og fáránleg heimild fyrir útgerðarmenn að breyta tegund sem ekki veiðist í aðra sem veiðist, þó ekki þorsk. Það er tegundatilfærslan sem við ræddum hér áður. Undir þessum formerkjum hafa stofnar karfa og grálúðu verið stórlega veiddir umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar svo nemur þúsundum tonna um ótalin ár. Umhyggja LÍÚ og stjórnvalda fyrir fiskstofnunum nær ekki lengra en þetta þegar hún telst rekast á hagsmuni stórútgerðarmanna.

Sé vilji til þess að nálgast það verkefni að skipuleggja það að ná sátt um nýja útfærslu stjórnkerfis fiskveiða á að byrja á því að skipta fiskiskipaflotanum upp í þrjá aðgreinda útgerðarflokka. Nauðsyn ber til að skilgreina skipin í aðgreinda útgerðarflokka fiskiskipa með sambærilegan möguleika til fiskveiða og nálgast þannig jafnræði milli þeirra sem starfa og gera út álíka kraftmikil veiðiskip sem hafa mismunandi áhrif á náttúrulega viðkomu í lífríki sjávar.

Þar ber fyrst að nefna flokk frystitogara og nóta- og togveiðiskipa sem veiða nú þegar innan og utan 200 sjómílna fiskveiðilögsögunnar, bæði botnfisktegundir og uppsjávarfisk eins og loðnu, síld, kolmunna og makríl. Þessi fiskiskipafloti frysti- og nótaskipa verði sérgreindur frá og mörkuð afla- og veiðistýring sem hentar honum í því alþjóðlega uppboðs- og samkeppniskerfi kvótaveiði, sóknar og alþjóða- eða milliríkjasamninga sem stórútgerðin starfar í.

Annar sérgreindur útgerðarflokkur væri stærri togveiðiskip sem landa ísvörðum fiski til landvinnslu. Þar þarf að taka tillit til eðlilegrar nýtingar á veiðislóð og fiskstofnum samfara takmörkuðum möguleikum til sóknar út fyrir lögsögu og eðlilegs aðgangs að öllum fisktegundum þar sem í togveiðarfæri kemur afli af mörgum fisktegundum. Tæknivædd línuveiðiskip með beitningarvélar veiða einnig fjölmargar fisktegundir, oftast innan 200 sjómílna fiskveiðislögsögunnar og stórir netabátar geta einnig átt heima í þessum útgerðarflokki. Fyrir fram, að lítið skoðuðu máli, er næsta víst að útfærslan hjá þessum þremur gerðum, ísfisktogurunum, beitningarvélabátunum og stóru netabátunum, þarf ekki að vera eins þrátt fyrir að vegna stærðar og afkasta og útiverutíma og veiðisvæða falli þessi fiskiskip saman í útgerðarflokk.

Þriðji flokkurinn við uppskiptingu flotans yrði síðan strandveiðiflotinn. Skipt yrði upp í fyrstu í báta undir sex tonnum, smábáta, og önnur dagróðraskip undir t.d. 120--140 brúttótonnum. Minnstu bátum strandveiðiflotans yrði gefið eins mikið frelsi til fiskveiða og frekast er kostur. Eins og málum er nú komið víða í kvótalausum sjávarbyggðum verður að opna möguleika strandveiðanna til aukins frjálsræðis. Afgjald af veiðifrelsi strandveiðiflotans rynni til útgerðarstaðanna til eflingar landsbyggð á nýjan leik.

Sú viðleitni Frjálslynda flokksins til sátta um nýja fiskveiðistjórn við Ísland sem ég hér ræði um felur í sér fáein meginmarkmið og leiðir auk hinnar almennu viðleitni til að láta löggjöf landsins ríma við stjórnarskrá lýðveldisins.

Í fyrsta lagi ætti að gera umhverfismat fyrir hvern útgerðarflokk og veiðarfæra. Tilgangurinn væri að meta faglega helstu áhættuþætti sem fylgja veiðum með tilteknum veiðarfærum við fiskveiðar. Strandveiðiflotanum sem enn er til í sjávarbyggðunum umhverfis landið verði gert mögulegt að sækja sjóinn með lágmarkshömlum og afla þannig bæði sjómönnum og landverkafólki sjávarbyggðanna lífsviðurværis. Kvótasetning verði afnumin á þeim tegundum nytjafiska sem ekki hefur tekist að veiða upp tvö fiskveiðiár í röð. Af slíkum afla verði greitt gjald sem Alþingi ákveður með lögum af hverju kílói eftir landaðri vigt. Framsal og framleiga á veiðiheimildum verði þegar í stað bönnuð.

Hinum smærri sem tilheyra munu strandveiðiflotanum og hafa taka tekið þátt í því fjárhættuspili sem framsalsheimildirnar frá 1990 hafa búið til verði forðað frá stóráföllum með skattalegri afskrift kvótaandvirðis.

Úthlutun kvóta eftir núgildandi reglum á þeim fisktegundum sem eftir væru undir kvótasetningu verði fryst að því er tekur til magns en jafnframt afnumin í fimm jafnstórum skrefum á næstu fimm árum þannig að fyrsti fimmtungurinn verði felldur niður við upphaf næsta fiskveiðiárs og síðan árlega koll af kolli.

Veiðiheimildum sem losna undan kvótaúthlutun samkvæmt því sem áður er sagt, aukningu á leyfilegu veiðimagni samkvæmt nýrri kvótasetningu og nýjum tegundum sem teknar yrðu undir kvótasetningu yrði annars vegar úthlutað með því að bjóða veiðiheimildirnar upp á opnum tilboðsmarkaði á ríkisins vegum og þá hæstu boð látin ráða, og hins vegar með greiðslu aflagjalds hjá strandveiðiflotanum.

[16:15]

Fyrstu tvö ár hins nýja kerfis skal leyfilegt heildarmagn þorsks aukið um 100.000 tonn hvort ár umfram venjubundna kvótasetningu.

Öll framkvæmd umskiptanna frá gömlu kerfi yfir í hið nýja væri í höndum sjálfstæðrar þriggja manna stjórnarnefndar óvilhallra manna sem Hæstiréttur tilnefnir en sækir umboð sitt beint til Alþingis. Stjórnarnefndin hefði bæði víðtækt úrskurðarvald um ágreiningsefni og lagaskyldu til að ráðleggja sjávarútvegsráðherra og eftir atvikum Alþingi um vandamál sem ráðherra eða Alþingi þyrfti að taka á í framkvæmd hinnar nýju stefnu. Stjórnarnefndin hefði enn fremur víðtækt ákvörðunarvald um ýmis atriði hinnar nýju stefnu, samanber það sem hér fer á eftir. Þá skal nefndin gera tillögu um hvernig þeim útgerðum sem mestu hafa varið hlutfallslega til kaupa veiðiheimilda á undanförnum árum verði forðað frá áföllum þegar kerfið er afnumið.

Tillaga okkar um uppboð á veiðiheimildum fer ekki einungis fram undir stjórn stjórnarnefndar hinnar nýju fiskveiðistjórnarstefnu heldur hefði hún heimild til að koma í veg fyrir að hóflausum yfirboðum stórútgerða yrði tekið sem og heimildir til að koma í veg fyrir að einstakar sjávarbyggðir verði út undan í slíkum útboðum þótt raunverulegt markaðsverð yrði að ráða í slíkum viðskiptum. Komi til þess, í uppboðum á veiðiheimildum og í hinum frjálsu veiðum strandveiðiflotans, að ójafnvægi myndist milli hinna þriggja hluta flotans yrði heimild til að skipta aflamagninu milli strandveiðiflotans og hinna tveggja hluta flotans.

Æskileg skipting aflamagns verði í samræmi við þá fisktegund sem mest er veidd hverju sinni af viðkomandi útgerðarflokki, eftir veiðarfærum, t.d. karfi og grálúða í troll.

Í mótun hins nýja fiskveiðistjórnkerfis verði hverjum þessara útgerðaflokka afmörkuð veiðislóð í sem bestu samræmi við það hvaða hluta flotans hentar best að nýta veiðislóðina með hagkvæmum og vistvænum hætti.

Við endanlega röðun í strandveiðiflota dagróðrarbáta með kyrrstæð veiðarfæri, línu, handfæri og net, þarf að skilgreina hvar sá floti hefur forgang. Strandveiðiflotanum sem stundar veiðar með togveiðarfærum á grunnslóð, dragnót og botnvörpu, þ.e. rækjuvörpu, þarf einnig að marka ramma líkt og gert er í dag með veiðisvæðaskiptingu.

Til að tryggja hagsmuni strandveiðiflotans og hinna dreifðu sjávarbyggða, sem og til að gera útboð veiðiheimilda viðráðanlegri með fækkun bjóðenda, er lagt til að strandveiðiflotinn taki ekki þátt í uppboðum veiðiheimilda heldur hafi frjálsa sókn á þeim svæðum sem honum eru mörkuð en greiði við löndun hverju sinni fjárhæð á hvert kíló kvótasetts fisks, að hámarki 15% af mánaðarlegu meðalverði á fiskmörkuðum. Stjórnarnefndinni væri þó heimilt að lækka þessa prósentu með hliðsjón af markaðsverði í útboði aflaheimilda. Æskilegt væri að aflagjald strandveiðiflotans rynni til uppbyggingar í viðkomandi byggðarlögum. Landað magn strandveiðiflotans með þessum hætti drægist jafnharðan frá hinu leyfða aflamagni eins og það hafi verið selt á markaðnum.

Útboð fari fram á opnum tilboðsmarkaði allt árið og heimildir leigðar til eins árs í senn. Ef heimildir fiskveiðiárs samkvæmt kvótasetningu þess þrýtur geta fiskiskip einungis einbeitt sér að veiðum tegunda sem eru utan kvótasetningar. Kvótasettur afli sem skip hefur ekki leigt rétt fyrir skal fluttur að landi, seldur fyrir hæsta fáanlegt verð og aflaverðmætinu skipt eftir reglum um lágverðsafla.

Við gerum ráð fyrir skyldu til að allur afli sem á skip kemur verði fluttur í land. Til að tryggja þetta og búa til hvata fyrir sjómenn og útgerðir til að sinna þessari lagaskyldu, þvert ofan í það sem núgildandi kerfi gerir, er gert ráð fyrir að slíkur lágverðsafli verði seldur á hæsta fáanlegu verði og andvirðinu skipt til helminga milli sérstaks brottkastssjóðs annars vegar en skips og áhafnar hins vegar. Reglunni er ætlað að ná því jafnvægi í þessum skiptum að hvatningin sé næg til að komið sé með fiskinn í land en ekki svo mikil að slíkur veiðiskapur verði stundaður sem viðvarandi útgerð.

Verði Vatneyrardómurinn hins vegar staðfestur af Hæstarétti óbreyttur er slík aðferð sem hér hefur verið rædd útilokuð og því nauðsynlegt að finna aðferð sem fullnægir jafnræðisreglu stjórnarskrár strax eftir þannig dóm Hæstaréttar. Þá væri nærtækast að byggja á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands nr. 79/1997. Þar eru nægar heimildir í 6.--8. gr. til þess að stjórna fiskveiðum og engin ástæða til að ætla að hér fari allt í forarpytt og vandræði ef ráðherra á annað borð vill stjórna samkvæmt áðurnefndum lögum.

Ég hef nú farið yfir það hvernig við í Frjálslynda flokknum teljum að vænlegt sé að nálgast það vandasama verk að búa hér til nýtt og betra fiskveiðistjórnarkerfi sem uppfylli jafnræðisákvæði stjórnarskrár og tryggi jafnan atvinnurétt fólksins í þessu landi. Það skal líka tekið fram að okkur er það kappsmál að vinna málið með öðrum stjórnmála- og hagsmunaaðilum hafi þeir vilja til verksins. Við álítum sem sagt ekki að það sem við setjum fram sé heilagt og fáist ekki breytt í samstarfi við aðra. Öllum hlýtur hins vegar að vera ljóst að núverandi braskkerfi sem grefur undan byggð í landinu og flýtir fyrir flótta fólks af landsbyggðinni er ekki leið sem við viljum byggja á, enda brýtur kvótabraskkerfið öll gildi sem Frjálslyndi flokkurinn vill standa fyrir. Við viljum að sátt ríki í landinu og að réttur fólksins sé í öndvegi.

Frv. sem ég hef hér mælt fyrir og kveður á um það að frystiskipaflotinn verði færður í sérkerfi innan núverandi kerfis þar sem hann geti ekki lengur flutt til sín meiri aflaheimildir er í raun fyrsti vísirinn að því að skipta íslenska veiðiflotanum upp í aðgreinda útgerðarflokka þannig að tala megi um þetta vandasama og mikla mál og nálgast vandann við stjórn fiskveiðanna hér við land með uppskiptingu flotans. Við í Frjálslynda flokknum teljum það grundvallaratriði til að ná eðlilegri fiskveiðistýringu og sátt um það að hér megi stunda fiskveiðar í friði við þjóðina að virtum öllum réttindum hennar.

Ég geri mér fyllilega ljóst að þeir sem nú gera út frystiskip hér á landi munu finna þessari tillögu ýmislegt til foráttu. Ég vil hins vegar benda á að t.d. í ályktunum Farmanna- og fiskimannasambandsins, bæði á sl. hausti og fyrir rúmum tveimur árum síðan, var samþykkt tillaga um að frystitogaraflotanum væri ekki heimilt að úrelda frekar bátaflotann til að færa til sín aflaheimildir af bátaflotanum. Menn sáu sem sagt vandann sem í þessu felst.

Á fiskveiðiárinu sem nú er að líða var rúmum 92 þús. tonnum úthlutað til togaraflotans og 72 þús. til bátaflotans. Hér er ég að tala um slægðan fisk og þyrfti að bæta 16% við til að færa þetta yfir í óslægt. Þetta þýðir í reynd að togarafloti landsmanna er að veiða u.þ.b. 60% af þorskaflanum og bátaflotinn um 40%. Ég held að á árum áður, þegar menn voru að skipta upp aflanum milli þessara skipagerða, hafi skiptingin oftast verið 48--50% á togaraflotann og 50--52% á bátaflotann. Ég held að allir sem hafa kynnt sér veiðar og fylgst með áhrifum veiðarfæra á fiskstofna hafi séð að það eru takmörk fyrir því hve mikið hlutfall af fiskstofninum má taka með togveiðarfærum svo að ekki láti á sjá. Hitt er jafnframt ljóst að togveiðarfærin eru bráðnauðsynleg til að nýta fiskislóðina og sumar fisktegundir. Í því sambandi get ég nefnt þær tegundir sem eru úthafsflotanum mest virði, frystitogaraflotanum, úthafskarfann og grálúðuna.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að á undanförnum árum hefur einmitt þessi floti, hinn öflugi úthafstogarafloti okkar fengið til sín auknar heimildir. Hann hefur fengið úthlutað karfa á Reykjaneshrygg og þær útgerðir hafa langmestan hluta þess sem úthlutað var í norsku lögsögunni með samningum við Norðmenn. Við erum einnig að nota stór og öflug frystiskip til veiða niðri á Flæmingjagrunni. Á sama tíma og við vorum með niðurskurð í veiðum innan lögsögunnar, eins og ég vék hér að í framsögu fyrir fyrra frv. um tegundatilfærsluna, á þeim tegundum sem hinn hefðbundni floti innan lögsögunnar hefur sótt í þá var þessi floti að bæta við sig veiðiheimildum.

Nótaflotinn hefur einnig bætt við sig veiðiheimildum á undanförnum árum og hefur nú orðið full verkefni við að veiða ýmsar uppsjávarfisktegundir, síld innan lögsögunnar úr norsk-íslenska síldarstofninum, úr loðnustofninum, úr kolmunnastofninum og jafnvel heimildir til þess að veiða makríl. Þessi tveir flotar, hinn afkastamikli og öflugi úthafsfrystiskipafloti og nótaflotinn, hafa full verkefni haft á undanförnum árum þegar aðrir hafa tekið á sig niðurskurð. Þeir hafa jafnframt getað leigt frá sér heimildir til bátaflotans meðan þeir hafa unnið sér veiðirétt annars staðar eins og þekkt var meðan menn voru að vinna sér veiðirétt í úthafskarfanum og eins í Smugunni.

Þrátt fyrir lögin um veiðar utan lögsögu, þar sem ákveðið er að skila eigi ákveðnum afla inn í lögsöguna þegar úthlutað er til einhvers hluta flotans utan lögsögunnar, þá hefur það skilað ákaflega litlu. Aðferðin sem notuð var, t.d. varðandi karfann á Reykjaneshrygg, var að heimildunum mátti skila inn og menn máttu velja sér fisktegundina. Þá völdu menn ufsann sem ekki veiddist það ár og skiluðu inn pappírsfiski þannig að bátaflotinn innan lögsögunnar sem átti að fá smáviðbót fyrir það að hinir fengu mikla viðbót fékk í raun og veru bara pappírsfisk. Þetta vita allir sem hafa fylgst með.