Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 16:34:22 (3987)

2000-02-03 16:34:22# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[16:34]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sem flutt er af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni felur í sér tillögur um að flotinn verði lagskiptur og færsla á aflaheimildum á milli einstkra flokka flotans verði takmörkuð. Jafnframt er hér lögð áhersla á sérgreiningu strandveiðanna.

Áherslurnar í þessu frv. eru í mörgu samhljóða því sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum varðandi nýtingu auðlinda fiskimiðanna. Hér er ekki aðeins tekið tillit til réttarstöðu byggðanna og þess fólks sem þar er og auðlindanna meðfram grunnslóðinni heldur er þetta einnig gæðanýting þessara auðlinda og vistvæn nýting þeirra, ekki aðeins fisksins sjálfs heldur er einnig inn í meðferð á miðunum og umgengni þar.

Það stríðir eiginlega gegn skynsemi okkar eða þeirri tilfinningu sem við höfum fyrir því hvernig stjórna skuli sókn í þessar auðlindir að stór frystiskip, búin til þess að vera úti dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman, með veiðarfæri sem eru svo stórvirk að þau taka yfir stór hafflæmi þegar þau eru að veiðum, hafi sama möguleika til að fá afnotarétt af fiskimiðunum á grunnslóðinni. Það er því mikið hagsmunamál, bæði fyrir nýtinguna á auðlindunum og öryggi hinna dreifðu byggða að flotinn sé lagskiptur, honum skipt í úthafsflota og grunnslóðarflota eða dagróðraflota, þ.e. trillur og stærri dagróðrabáta.

Herra forseti. Ég var í Skotlandi fyrir nokkrum árum og fór um vesturströnd Skotlands og út til eyjanna fyrir ströndum Norður-Skotlands. Þar var versnandi ástand í afkomu fólks og búsetu. Þegar við fórum að spyrja þetta fólk hvað hefði þar ráðið mestu um þá sagði það að rétturinn til að veiða fiskinn sem það hafði byggt afkomu sína á hefði verið seldur langt í burt þannig að fólkið átti þar ekki nokkurn forgangsrétt. Menn héldu að þeir mundu kannski græða á olíunni þegar hún fannst úti fyrir ströndum þeirra en hún var líka í eigu annarra en þeirra sem bjuggu á þessu svæði. Allt sem virtist vera hægt að flytja burt, allur afnotaréttur, allur réttur að auðlindum sem virtist hægt að flytja burt úr héruðunum á þessum svæðum var flutt burt. Ekki var hægt að reiða sig á þennan afnotarétt varðandi atvinnu og byggð á þessu svæði.

Íbúar þessa svæðis gripu þá til þess ráðs að reyna að finna upp einhverja atvinnu sem ekki væri hægt að flytja burt. Þar voru m.a. mjög athyglisverðar tilraunir gerðar til að laða fram sögu bygginga og búsetu í eyjunum, gera upp gömul hús og laða fram sögu þeirra. Það er þó ekki hægt að flytja þessi gömlu hús burt, sögðu menn. En engan veginn var þetta samt nóg. Fólkið sem við hittum var sammála um að byggðunum kæmi best að færa þennan afnotarétt, forgangsréttinn til þess að nýta auðlindirnar meðfram ströndum landsins, aftur til þeirra. Það væri öruggast fyrir byggðina þar.

Nú á síðustu árum hefur það einmitt verið að gerast smátt og smátt aftur á þessu svæði. Augu stjórnvalda sem ráðstöfuðu áður þessum rétti hafa opnast. Rétturinn til þess að nýta þessar auðlindir hefur smám saman færst til baka, þ.e. forgangsréttur þeirra.

Herra forseti. Þetta er því ekkert alíslenskt fyrirbrigði. Við ættum þess vegna að geta leitað að fyrirmyndum annars staðar vegna þeirrar ráðstöfunar sem við búum við núna og höfum gert síðustu ár varðandi aðgengi að þessum náttúruauðlindum okkar. Við mundum sjá að í öðrum löndum leiðir þessi tilhögun ekki til annars en misskiptingar valds og auðs og byggðaröskunar. Einnig er þekkt að hægt er að snúa þessu við ef vilji er til. Herra forseti. Hlutverk Alþingis er að gera svo og hafa frumkvæði um það með lagasetningu. Hafi lagasetning eða framkvæmd laga mistekist þá ber okkur líka að taka þau lög upp og breyta þannig að vilji laganna nái fram að ganga. Með fiskveiðistjórninni eigum við að skila náttúruauðlindum til hinna dreifðu byggða kringum allt land, réttinum til að stunda fiskveiðar, forgangsréttinum. Þennan rétt eigum við á Alþingi að tryggja.

Frv. sem hér er lagt fram af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni leggur þessu einmitt lið. Það er einn þáttur til þess að skoða í þá veruna. Ég tel því mikilvægt að þetta frv. fái mjög vandlega skoðun í sjútvn. þó að einhver skoðanamunur geti kannski verið um útfærsluatriði. Ég tel að meining þessa frv. sé mjög í anda þess sem við viljum sjá.