Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 16:52:23 (3990)

2000-02-03 16:52:23# 125. lþ. 56.3 fundur 230. mál: #A stjórn fiskveiða# (frystiskip) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[16:52]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er á þeirri skoðun að mismunun í aðgangi að fiskimiðunum geti ekki samræmst stjórnarskránni. Vilji menn styðja byggðarlög með einhverjum hætti á það að felast í því að menn geti notið þeirrar aðstöðu sem byggðarlögin byggðust reyndar á í upphafi, þ.e. nálægð við fiskimiðin, að þeir fái aftur möguleikana sem sú nálægð gaf þeim. Ef menn þurfa síðan að styðja við bakið á byggðarlögum vegna byggðasjónarmiða þá verða menn að gera það á þeim forsendum. Ég tel að það sé mjög erfitt að finna einhverja aðferð sem getur gengið upp við jafnræði og jafnan aðgang manna að atvinnu sem gerði jafnframt upp á milli þeirra sem fá að stunda sjó á Íslandsmiðum.