Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 03. febrúar 2000, kl. 17:23:56 (3996)

2000-02-03 17:23:56# 125. lþ. 56.4 fundur 231. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (fasteignagjöld) frv. 92/2000, Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum, á þskj. 278. Flm. ásamt mér er hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson.

Í 16. grein núverandi laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins segir að sjóðurinn skuli vera undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem hann eignast og að öll skjöl viðvíkjandi lánum sem sjóðurinn taki skuli undanþegin stimpilgjöldum. Í frv. sem nú er til umræðu er lagt til að fyrri málsliður greinarinnar sem ég nefndi áðan falli brott þannig að undanþága sjóðsins frá greiðslu fasteignagjalda verði afnumin. Hér er með öðrum orðum eingöngu verið að leggja til að þessi undanþága varðandi fasteignagjöldin verði afnumin en að öðru leyti standi ákvæðið óbreytt.

Þegar lögin um Þróunarsjóðinn voru sett á sínum tíma, árið 1994, var ákveðið að sjóðurinn fengi heimild til að leysa til sín og eignast fiskvinnsluhúsnæði. Hugsunin var sú sama og þegar ákveðið var að Þróunarsjóðurinn keypti upp gömul skip. Þarna var fyrst og fremst verið að reyna að stuðla að hagræðingu í greininni. Menn bentu á að með sama hætti og offjárfesting væri í fiskiskipaflotanum væri offjárfesting í fiskvinnsluhúsunum og með þessu vildu menn reyna að leysa greinina úr þeim kröggum og þess vegna var þetta ákvæði sett inn eins og menn muna.

Reynslan varð sú að sjóðurinn eignaðist ekki mjög mörg hús og var sett vinnuregla um að almennt skyldi sjóðurinn ekki kaupa hús nema ljóst væri að hann gæti selt þau aftur til annarra nota en fiskvinnslu. Gert var ráð fyrir því að slík sala færi fram með tapi alla jafna en hugsunin með þessu var að sjóðurinn eignaðist húsin, seldi þau síðan á lægra verði í samræmi við markaðsverð á hverjum tíma. Mér er ekki kunnugt um nákvæmlega hver reynslan varð eða hverjar tölurnar þarna voru en þetta gerðu menn og var að mínu mati á þessum tíma skynsamleg ráðstöfun sem ég studdi heils hugar.

Þá var þetta ákvæði sett inn sem hér er verið að fjalla um, þessi undanþága frá því að greiða fasteignagjöld, og tilgangurinn var sá að þar sem engin starfsemi færi fram í fasteignunum á meðan þær væru í eigu sjóðsins væri eðlilegt að þær nytu undanþágu frá fasteignagjöldum og að um leið og þeim væri ráðstafað af sjóðnum til annarra nota yrðu fasteignagjöld lögð á að nýju. Þess vegna má segja sem svo að menn hafi gengið út frá því í lagasetningunni á sínum tíma að eignarhald sjóðsins á húsunum yrði ævinlega til skamms tíma og þannig var það reyndar í langflestum þeirra tilvika sem til komu hjá sjóðnum að sjóðurinn átti sín hús í frekar skamman tíma og seldi þau síðan aftur.

Um nokkurra ára skeið, sennilega alveg frá 1994, 1995 hefur Þróunarsjóður sjávarútvegsins átt húsnæði á tveimur stöðum á landinu, á Patreksfirði og Ísafirði, án þess að komið hafi til sölu. Og vegna undanþágunnar sem frá greinir í 16. gr. laganna hefur sjóðurinn ekki þurft að borga fasteignagjöld til viðkomandi sveitarfélaga frá því að hann eignaðist húsin.

Ég tel óeðlilegt, miðað við þann upphaflega tilgang sem var til staðar og fram kemur í athugasemdum við frv. þegar það var samið á sínum tíma, að þetta sé svona til frambúðar og augljóst að það er líka fullkomlega óeðlilegt frá samkeppnislegu sjónarmiði. Við getum séð það í hendi okkar að stór húseigandi eins og Þróunarsjóðurinn getur skapað sér allt aðra aðstöðu, t.d. við að leigja út frá sér í samkeppni við þá sem greiða fasteignagjöld. Og af því að í tísku er að tala um jafnræðið, jafnræðisregluna og jafna samkeppnisstöðu þá held ég að þetta væri nú einn af þeim þáttum sem ég geri ráð fyrir að sú merka stofnun Samkeppnisstofnun gæti farið að reka hornin í ef þetta héldi áfram óbreytt. Að mínu mati hníga öll rök að því að eðlilegt sé að Þróunarsjóðurinn greiði fasteignagjöld eins og aðrir húseigendur í þeim sveitarfélögum þar sem þeir eiga húsnæði.

Í þeim tveim tilvikum sem ég fjalla hér um er um að ræða stór og myndarleg fiskvinnsluhús, annað er reyndar talsvert gamalt, og samkvæmt upplýsingum sem ég fékk frá Þróunarsjóðnum þegar ég var að undirbúa þetta frv. kom fram að fasteignamat húsanna á Patreksfirði er um 40 millj. kr. og á Ísafirði um 140 millj. kr. Þó skal haft í huga að fasteignamatið eins og menn þekkja myndar hins vegar ekki gjaldstofninn sem fasteignaskatturinn er reiknaður af, heldur er það útreiknaður gjaldstofn sem m.a. tekur mið af því hvert sé verð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, og það hefur eins og allir vita hækkað gríðarlega mikið. Fasteignagjöldin hafa því almennt verið að hækka hjá húseigendum í landinu og m.a. úti á landi þrátt fyrir að þar hafi húsnæðisverð líka verið lækkandi.

Samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér frá Ísafjarðarbæ við undirbúning þessa máls voru álagðir fasteignaskattar af húseignum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins á Ísafirði um 2,8 millj. kr. á árinu 1999. Samkvæmt ákvæðum laganna, sem bæjaryfirvöld standa einfaldlega frammi fyrir og hafa fengið úrskurð um og álit síns lögmanns, er ekki heimilt að innheimta þessa skatta. Bæjaryfirvöld og bæjarlögmaður telja þess vegna að þeir verði að fella niður álagninguna á fasteignasköttunum, þ.e. að Þróunarsjóðurinn þarf ekki að borga fasteignaskattshlutann af fasteignagjöldunum heldur eingöngu það sem kallað hefur verið þjónustugjöld en þá er átt við lóðarleigu, holræsa-, vatns- og sorphirðugjald.

[17:30]

Þetta eru sem sagt 2,8 millj. kr. á árinu 1999 og mér sýnist miðað við það að ekki sé fjarri lagi að tekjutap Vesturbyggðar gæti af sömu ástæðum verið nálægt 1 millj. kr. á ári. Það er með öðrum orðum alveg ljóst mál að þó þettu séu kannski ekki mjög stórar tölur í hlutfalli við ýmislegt annað þá eru þetta tölur sem munar um fyrir þessi sveitarfélög. Öll rök, jafnræðisrök ekki síst, hníga að því að á meðan Þróunarsjóðurinn á þessi hús sé hann látinn borga fasteignagjöld enda sjá menn í hendi sér að það væri mjög óeðlilegt ef Þróunarsjóðurinn mundi síðan selja þessar eignir á morgun þá væri kaupandinn strax farinn að borga 2,8 milljónir af þessu húsnæði sem Þróunarsjóðurinn þurfti ekki að gera. Við sjáum því í hendi okkar að þetta er mjög afkáralegt þegar það er sett í þetta samhengi. Og þó svo kunni að hafa verið á þeim tíma, á árinu 1994, að menn hafi ekki gert ráð fyrir því að Þróunarsjóðurinn ætti húsin mjög lengi þá er þetta hins vegar reynslan og menn standa frammi fyrir henni. Því er skynsamlegt að reyna að vera vitur og bregðast við og breyta lögunum.